- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Marta bjargaði öðru stiginu fyrir ÍBV

Marta Wawrzykowska varði vítakast og tryggði ÍBV annað stigið gegn Selfossi. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -


Marta Wawrzykowska markvörður sá til þess að ÍBV fékk annað stigið gegn Selfossi í viðureign liðanna í Olísdeild kvenna í Vestmannaeyjum í dag. Marta varði vítakast frá Huldu Dís Þrastardóttur þegar leiktíminn var úti, 27:27. Vítakastið var dæmt á síðustu í sekúndum vegna þess að Sigurði Bragasyni þjálfara ÍBV varð það á í spennu síðustu sekúndna leiksins biðja um leikhlé þegar Selfoss var í sókn en virtist vera að missa boltann.

„Þetta voru bara mistök af minni hálfu,“ sagði Sigurður við handbolta.is í kvöld. „Ég hef ekkert út á dómarana að setja,“ bætti Sigurður við en í frásögn af leiknum fyrr í dag á handbolti.is var fullyrt að Sigurður hafi fengið rautt spjald fyrir að lýsa yfir óánægju með dómarana. Svo var alls ekki. Rauða spjaldið fékk Sigurður á síðustu sekúndum þegar honum hljóp kapp í kinn við að óska eftir leikhléi. Vítakastið var dæmt í kjölfarið.


Fyrst málgrein fréttarinnar, fyrir ofan auglýsinguna, hefur verið uppfærð.

Stigið nægði ÍBV til þess að færast upp í sjötta sæti Olísdeildar þegar tvær umferðir eru eftir. Þess í stað hefur Stjarnan tekið sæti númer sjö, tveimur stigum fyrir ofan Gróttu sem situr í neðsta sæti.

Stigið dugði Selfossi til komast upp fyrir ÍR í fjórða sæti. Víst er að Selfoss og ÍR mætast í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Úrslit tveggja síðustu umferða munu hinsvegar skera úr um hvort þeirra hreppir heimaleikjaréttinn.

Viðureignin í Eyjum í dag var jöfn og úrslitin sanngjörn. Birna Berg Haraldsdóttir kom ÍBV yfir, 27:26, þegar tvær mínútur og 50 sekúndur voru til leiksloka. Perla Ruth Albertsdóttir jafnaði fyrir Selfoss þegar mínúta var eftir. Ágústa Tanja Jóhannsdóttir, markvörður Selfoss sem átti stórleik, sá til þess að Eyjamörkin yrðu ekki fleiri áður en Marta Wawrzykowska sá við Huldu Dís hinum megin á vellinum rúmri hálfri mínútu síðar.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.


Mörk ÍBV: Sunna Jónsdóttir 7, Birna Berg Haraldsdóttir 6, Dagbjört Ýr Ólafsdóttir 5, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 3, Britney Emilie Florianne Cots 3, Birna María Unnarsdóttir 2, Ásdís Halla Hjarðar 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 9/1, 25%.

Mörk Selfoss: Perla Ruth Albertsdóttir 8/1, Katla María Magnúsdóttir 4, Hulda Dís Þrastardóttir 4, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 3, Sara Dröfn Ríkharðsdóttir 3, Eva Lind Tyrfingsdóttir 2, Harpa Valey Gylfadóttir 1, Hulda Hrönn Bragadóttir 1, Inga Sól Björnsdóttir 1.
Varin skot: Ágústa Tanja Jóhannsdóttir 19/1, 41,3%.

Tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -