- Auglýsing -
- Auglýsing -

Marta sá til þess að stigin tvö fóru til Eyja

Marta Wawrzykowska markvörður ÍBV. Ljósmynd/Kristján Orri Jóhannsson
- Auglýsing -

ÍBV vann nauman sigur á Gróttu í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í 1. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í dag, 23:21. Í raun munaði sáralitlu að nýliðar Gróttu kræktu í annað stigið undir lokin eftir að hafa svo gott sem unnið upp fimm marka forskot ÍBV á síðustu mínútum. ÍBV-liðið getur fyrst og fremst þakkað Mörta Wawrzykowsku fyrir sigurinn. Hún var frábær í markinu, varði 24 skot, þar á meðal vítakast á síðustu mínútu þegar Grótta gat minnkað muninn í eitt mark mínútu fyrir leikslok.

Leikurinn var jafn í 45 mínútur og svo aftur á allra síðustu mínútum. Liðin skiptust á um að vera marki yfir. Gróttuliðið barðist vel í vörninni og vann boltann hvað eftir annað. Sóknarleikurinn strandaði oftar en ekki á Mörtu markverði ÍBV auk þess sem ÍBV-liðið gerði afar mörg mistök í sókninni og tapaði boltanum fyrir vikið. Að loknum fyrri hálfleik var ÍBV tveimur mörkum yfir.

Síðari hálfleikur var í járnum allt þangað til 13 mínútur voru yfir. Grótta hafði þá komist tvisvar yfir, 16:15 og 17:16. Leikmenn ÍBV vöknuðu upp af vondum draumi og skoruðu sex mörk í röð. Svo virtist sem sigurinn væri innan seilingar fimm mínútum fyrir leikslok þegar Grótta tók leikhlé fimm mörkum undir, 22:17. Sú reyndist ekki vera raunin. Gróttukonur komu sem grenjandi ljón til baka eftir leikhléið og minnkuðu muninn í eitt mark, 22:21. Herslumun vantaði upp á að jafna metin.

Skiljanlegt var að leikmenn Gróttu gengju vonsviknar af leikvelli. Þær verðskulduðu stig.

Auk Mörtu þá var Sunna Jónsdóttir allt í öllu, jafnt í vörn sem sókn. Leikmenn ÍBV hafa hinsvegar í mörg horn að líta fyrir leikinn við Val í næstu umferð.

Mörk Gróttu: Daðey Ásta Hálfdánsdóttir 5/1, Karlotta Óskarsdóttir 5, Rut Bernódusdóttir 4, Tinna Valgerður Gísladóttir 3/2, Ida Margrét Stefánsdóttir 3, Katrín Anna Ásmundsdóttir 1.
Varin skot: Anna Karólína Ingadóttir 4, 21,1% – Sara Xiao Reykdal 3, 27,3%.
Mörk ÍBV: Sunna Jónsdóttir 8, Birna Berg Haraldsdóttir 6/1, Britney Emilie Florianne Cots 3, Yllka Shatri 2, Herdís Eiríksdóttir 1, Dagbjört Ýr Ólafsdóttir 1, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 1, Þóra Guðný Arnarsdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 24/2 53,3%.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

Tölfræðin hjá HBStatz.

Hjá HBStatz: Valur – ÍR, Olís kvenna, kl. 14.15.

Handbolti.is var í Hertzhöllinni og fylgdist með leik Gróttu og ÍBV í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -