Matthildur Lilja Jónsdóttir hefur framlengt samningi sínum við handknattleiksdeild ÍR til ársins 2027. Matthildur Lilja er í stóru hlutverki hjá ÍR í Olísdeildinni í vetur auk þess að hafa verð á meðal öflugari leikmanna liðsins á síðasta vori þegar ÍR vann Selfoss í umspili um sæti í Olísdeildinni.
Í vetur hefur Matthildur Lilja skorað 56 mörk í 18 leikjum auk þess að spila stórt hlutverk í varnarleik liðsins. Matthildur er uppalin í félaginu og er hluti af ungum og efnilegum kjarna liðsins sem hefur verið að láta til sín taka í Olís-deildinni í vetur. Einnig hefur Matthildur Lilja verið í æfingahópi 20 ára landsliðsins kvenna.
„Framlenging Matthildar er afar mikið gleðiefni enda búin að vera algjör lykilhlekkur liðsins á báðum endum vallarins í vetur. Hún er mikill leiðtogi sem leggur mikið á sig og er afar ósérhlífin leikmaður. Það að Matthildur framlengi til ársins 2027 undirstrikar einnig stefnu félagsins að festa sig í sessi sem öflugt úrvalsdeildarlið næstu árin,” er haft eftir Sólveigu Láru Kjærnested þjálfara kvennaliðs ÍR í tilkynningu.