Neðsta lið Olísdeildar kvenna, Grótta, gerði sér lítið fyrir og kjöldró leikmenn ÍBV í Vestmannaeyjum í dag aðeins sex dögum eftir þjálfaraskipti hjá Seltjarnarnesliðinu. Lokatölur 31:19 og ár og dagur síðan kvennalið ÍBV hefur tapað með 12 marka mun á heimavelli í Olísdeildinni, hvað þá fyrir neðsta liðinu.
Sigurjón Friðbjörn er hættur þjálfun Gróttu
Eftir nokkurt jafnvægi í fyrri hálfleik var Grótta þó með þriggja marka forskot í hálfleik, 16:13. Ekkert benti til þess sem í vændum var. Botn datt úr sóknarleik ÍBV. Leikmenn Gróttu gengu á lagið og unnu stórsigur sem væntanlega fáir hefðu veðjað á fyrirfram þótt vissulega sé ÍBV-liðið í uppbyggingafasa og ekki eins sterkt og stundum áður.
Grótta er áfram neðst í Olísdeildinni en stendur ÍR og Stjörnunni jafnfætis þegar lítið er til fjölda stiga. Hvert lið hefur fjögur stig. ÍBV er sæti ofar með sex stig.
Öruggt hjá Fram
Fram komst á ný upp í annað sæti Olísdeilar kvenna í dag með sannfærandi sigri á Stjörnunni í Hekluhöllinni í Garðabæ, 24:18. Fram hefur þar með 12 stig eftir átta leiki eins og Haukar en stendur betur að vígi í innbyrðis leikjum.
Darija Zecevic markvörður Fram reyndist gömlum samherjum óþægur ljár í þúfu. Hún varði 15 skot í dag. Hún átti einnig afar góðan leik með Fram í bikarleik við Selfoss á síðasta mánudag.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
ÍBV – Grótta 19:31 (13:16).
Mörk ÍBV: Birna Berg Haraldsdóttir 7, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 2, Yllka Shatri 2, Ásta Björt Júlíusdóttir 2, Birna María Unnarsdóttir 2, Sunna Jónsdóttir 1, Herdís Eiríksdóttir 1, Birna Dögg Egilsdóttir 1, Dagbjört Ýr Ólafsdóttir 1.
Varin skot: Ólöf Maren Bjarnadóttir 6/1, 33,3% – Marta Wawrzykowska 4, 19%.
Mörk Gróttu: Ída Margrét Stefánsdóttir 7, Karlotta Óskarsdóttir 5, Katrín Helga Sigurbergsdóttir 4, Katrín Anna Ásmundsdóttir 4, Katrín S. Thorsteinsson 3, Rut Bernódusdóttir 3, Daðey Ásta Hálfdánsdóttir 2, Bríet Ómarsdóttir 2, Hrafnhildur Hekla Grímsdóttir 1.
Varin skot: Anna Karólína Ingadóttir 14, 45,2% – Sara Xiao Reykdal 0.
Stjarnan – Fram 18:24 (8:11).
Mörk Stjörnunnar: Embla Steindórsdóttir 5/1, Eva Björk Davíðsdóttir 3, inna Sigurrós Traustadóttir 3, Anna Karen Hansdóttir 2, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 2, Vigdís Arna Hjartardóttir 2, Hanna Guðrún Hauksdóttir 1.
Varin skot: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 10/1, 29,4%.
Mörk Fram: Alfa Brá Hagalín 8, Þórey Rósa Stefánsdóttir 4, Karen Knútsdóttir 3, Kristrún Steinþórsdóttir 3, Steinunn Björnsdóttir 3, Íris Anna Gísladóttir 1, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 1, Hildur Lilja Jónsdóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 15, 45,5% – Andrea Gunnlaugsdóttir 1, 100%.