KA/Þór fagnaði sínum fyrsta sigri í Olísdeild kvenna í kvöld þegar liðið lagði neðsta lið deildarinnar, FH, 21:19, í Kaplakrika í síðasta leik þriðju umferðar deildarinnar og fer því með kærkomin tvö stig í farteskinu norður í kvöld.
FH-liðið gaf ekkert eftir og lék leikmenn KA/Þórs svo sannarlega hafa fyrir sigrinum. Framan af fyrri hálfleik átti FH í fullu tré við andstæðinga sína en á lokamínútunum seig KA/Þórsliðið fram úr og var með þriggja marka forskot í hálfleik, 12:9.
Svipaður munur hélst milli liðanna í síðari hálfleik. FH-ingar voru aldrei langt undan og sýndu að hvað sem öllum hrakspám líður þá verða liðin að hafa fyrir því að sækja tvö stig í greipar þeirra.
Eftir talsvert þrátefli í stöðunni, 20:18, tókst FH-ingnum, Britney Cots, loks að brjóta ísinn og minnka muninn í eitt mark, 20:19, þremur mínútum fyrir leikslok. Martha Hermannsdótir kom KA/Þór aftur í tveggja marka forskot er hún skoraði úr vítakasti. Þá voru enn þrjár mínútur eftir af leiktímanum.
FH-liðið lagði allt í sölurnar undir lokin. Eftir leikhlé hálfri mínútu fyrir leikslok átti Cots skot sem Lonac í marki KA/Þórs varði. Þar með fór síðasti möguleikinn á að ná öðru stiginu.
Stórbrotin frammistaða
Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir átti stórleik í marki FH og varði um 20 skot, eða nærri 50% hlutfallsmarkvörslu. Góður leikur Matea Lonac í marki KA/Þórs, sem varði um 40% af þeim skotum sem á mark hennar komu, féll alveg í skuggan á stórleik Hrafnhildar Önnu.
Hildur Guðjónsdóttir var markahæst hjá FH með fjögur mörk. Emelía Jakobsen og Britney Cots skoruðu þrjú mörk hvor. Ekki verður framhjá því litið að lokum að geta þess að oft var fast gengið út í Cots í leiknum án þess að þeir sem það gerðu fengju að súpa seyðið af því hjá dómurum leiksins, Herði Aðalsteinssyni og Bóasi Berki Bóassyni.
Rut Arnfjörð Jónsdóttir var markahæst hjá KA/Þór með sjö mörk. Ásdís Guðmundsdótti var næst með fjögur mörk og Hulda Bryndís Tryggvadóttir skoraði þrjú.