„Það er ekkert langt síðan við spiluðum við þá síðast, ekki nema ár eða svo. Þess vegna þekkjum við ágætlega út í hvað við erum að fara. Við eigum að vinna þá á góðum degi,“ sagði Bjarki Már Elísson landsliðsmaður í handknattleik sem kom aftur inn í landsliðshópinn núna fyrir leikina við Eistlendinga eftir að hafa fengið frí þegar íslenska landsliðið mætti Grikkjum tvisvar í vináttuleikjum í Aþenu um miðjan mars.
Markahæstur síðast
Bjarki Már var hinsvegar með landsliðinu í lok apríl á síðasta ári þegar Eistlendingar voru lagðir með sjö marka mun, 30:23, í riðlakeppni undankeppni EM 2024 í Laugardalshöll. Bjarki Már skoraði átta mörk í leiknum og var markahæstur.
„Eins og fyrri daginn er ljóst að við megum ekki mæta á hálfum hraða í leikinn þótt við séum taldir vera með sterkara lið en Eistlendingar. Við viljum alls ekki fara í síðari leikinn í Tallinn á laugardaginn og vera með bakið upp við vegg. Við gerum þá kröfu til okkar að vinna leikina,“ sagði Bjarki Már sem telur það vera kröfu eftir að landsliðinu tókst ekki að komast inn á Ólympíuleikana eins og var markmiðið var í upphafi ársins, fyrir EM.
„Við viljum vera inni á öllum stórmótum. Þess vegna kemur ekkert annað til greina en að klára þetta verkefni og gera það almennilega,“ sagði Bjarki Már Elísson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is.