Kvennalið Hauka í Olísdeildinni varð fyrir skakkaföllum í gær þegar í ljós kom að Berglind Benediktsdóttir hafði tábrotnað á æfingu í fyrrakvöld. Hún leikur þar af leiðandi ekki með Haukum á næstunni.
Skarð er fyrir skildi í fjarveru Berglindar. Hún hefur verið öxull í varnarleik liðsins auk þess að koma mjög sterk inn í sóknarleik Hauka í sigrinum á FH í annarri umferð Olísdeildar í Schenkerhöllinni á síðasta laugardag, 26:25. Berglind skoraði þá þrjú mörk í síðari hálfleik á stuttum tíma.
Berglind lék alla leiki Hauka-liðsins á síðasta keppnistímabili og hefur verið í stóru hlutverki í upphafsleikjum liðsins á yfirstandandi leiktíð.
Haukar sækja deildar- og bikarmeistara Fram heim í Safamýri í þriðju umferð Olísdeildarinnar á laugardaginn klukkan 13.30.