„Við vorum bara alls ekki nógu vel stemmdar og því fór sem fór,“ sagði Elín Rósa Magnúsdóttir leikmaður Vals þegar handbolti.is talaði við hana eftir tap Valsliðsins fyrir Fram, 28:26, í Olísdeild kvenna í Lambhagahöllinni í kvöld. Eftir leikinn munar aðeins tveimur stigum á Val og Fram í tveimur efstu sætunum þegar þrjár umferðir eru eftir óleiknar hjá hvoru liði.
„Þetta var hörkuleikur og við vissum alveg hvað við vorum að fara út í, þannig séð. Hinsvegar er ljóst að það þýðir ekki að vera á áttatíu prósent krafti þegar maður mætir Fram heldur þarf að vera á hundrað og tíu prósent. Við vorum það ekki í kvöld. Meiri grimmd vantaði í okkur,“ sagði Elín Rósa.
Valur á næst leik við Hauka í deildinni á miðvikudagskvöld en Haukar er í þriðja sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir Val. Valur verður að vinna þann leik til þess að krækja í deildarmeistaratitilinn og eiga heimaleikjarétt alla úrslitakeppnina.
„Við ætlum okkur þann titil og verðum að gera betur á miðvikudaginn,“ sagði Elín Rósa Magnúsdóttir leikmaður Vals.
Lengra viðtal við Elínu Rósu er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Framarar anda ofan í hálsmál Valsara á endasprettinum – Haukar eru einnig nærri