Liðið sem flestir telja að séu líklegasta meistaraefni Olísdeildar karla, Valur, vann öruggan sigur á Stjörnunni, 32:27, í upphafsleik Olísdeildar karla í Hekluhöllinnni í Garðabæ í kvöld. Valsliðið var svo sannarleg með tögl og hagldir í leiknum frá upphafi til enda. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 14:10, Valsmönnum í vil.
Stjörnumenn voru alls ekki með á nótunum í sóknarleiknum framan af viðureigninni. Þeim lánaðist aðeins að skora eitt mark á fyrstu 10 mínútum og höfðu skoraði tvö mörk þegar 15 mínútur höfðu gengið á leikklukkunni góðu í Garðabæ. Ekki var það allt sökum þess að Björgvin Páll Gústavsson varði vel í marki Vals heldur einnig vegna klaufaskapar Stjörnumanna sjálfra sem töpuðu boltanum oft á einfaldan hátt.
Hafi verið einhver von hjá Stjörnunni í hálfleik eftir að hafa lifnað við á síðari hluta fyrri hálfleiks þá gerðu Valsmenn út um alla vonir heimamanna á upphafskafla síðari hálfleik. Eftir stundarfjórðung var munurinn 10 mörk, 26:16. Aðeins dró saman með liðunum á lokakaflanum. Minnstur varð munurinn fjögur mörk.
Fjórir fjarverandi
Töluverð afföll voru í Stjörnuliðinu í kvöld vegna meiðsla. Sem kunnugt er þá sleit Tandri Már Konráðsson hásin í leik um síðustu helgi. Sveinn Andri Sveinsson er ekkert byrjaður að leika með vegna meiðsla. Auk þeirra þá fékk Adam Thorstensen markvörður höfuðhögg á æfingu í gær og Ísak Logi Einarsson tognaði á nára. Adam og Ísak verða hugsanlega með Stjörnunni í síðari viðureigninni við rúmenska liðið CS Minaur Baia Mare í forkeppni Evrópudeildarinnar í Hekluhöllinni á laugardag.
Ekki bætti úr skák hjá Stjörnunni að Jón Ásgeir Eyjólfsson fékk beint rautt spjald eftir um 10 mínútur fyrir klaufalegt brot á Bjarna í Selvindi.
Róbert og Magnús fjarri góðu gamni
Valur var heldur ekki með allar sínar kanónur. Róbert Aron Hostert og Magnús Óli Magnússon voru fjarri góðu gamni í kvöld. Róbert Aron verður frá í nokkrar vikur en von er á Magnúsi Óla til leiks fljótlega, að sögn Ágústs Þór Jóhannssonar nýs þjálfara Vals.
Mörk Stjörnunnar: Hans Jörgen Ólafsson 7, Jóhannes Bjørgvin 5, Benedikt Marinó Herdísarson 5, Starri Friðriksson 3, Jóel Bernburg 2, Loftur Ásmundsson 1, Pétur Árni Hauksson 1, Gauti Gunnarsson 1, Dagur Máni Siggeirsson 1, Patrekur Þór Guðmundsson Öfjörð 1.
Varin skot: Sigurður Dan Óskarsson 5/1, 17,9% – Baldur Ingi Pétursson 5, 38,5%.
Mörk Vals: Viktor Sigurðsson 9/2, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 5, Allan Norðberg 4, Kristófer Máni Jónasson 4, Gunnar Róbertsson 4/1, Þorgils Jón Svölu Baldursson 2, Agnar Smári Jónsson 1, Daníel Montoro 1, Bjarni í Selvindi 1, Andri Finnsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 9/1, 27,3% – Jens Sigurðarson 0.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.