Króatíska meistaraliðið RK Zagreb hefur sett tvo leikmenn sína, Serbann Miloš Kos og Króatann Zvonimir Srna, í tímabundið keppnisbann fyrir slagsmál í búningsklefa liðsins eftir tap RK Zagreb fyrir Nantes í Meistaradeild Evrópu á fimmtudaginn.
Félagið segir í tilkynningu að Kos og Srna leiki ekkert á næstunni meðan mál þeirra verði til skoðunar innan félagsins. Til viðbótar verður einn samherji þeirra hugsanlega frá keppni í nokkrar vikur eftir barsmíðar annars þeirra.
Samkvæmt heimildum króatískra fjölmiðla kastaðist í kekki milli nokkurra leikmann RK Zagreb í búningsklefanum eftir leikinn við Nantes. Kos mun hafa legið undir gagnrýni fyrir að slá slöku við á leikvellinum. Á markvörðurinn Matej Mandić að hafa verið fremstur í flokki gagnrýnenda. Kos mun hafa tekið gagnrýni samherja sinna óstinnt upp og runnið í skap.
Sauð loks upp úr og voru hnefarnir látnir tala. Kos á hafa slegið Mandić svo alvarlega í andlitið að hugsanlega verður hann ekki með á HM í janúar. Srna á að hafa komið landa sínum, Mandić, til varnar og gengið í skrokk á Kos og slegið hann nokkrum sinnum.