Valur varð bikarmeistari kvenna í handknattleik í áttunda sinn í dag. Valur lagði Fram með sex marka mun í úrslitaleik Coca Cola-bikarsins á Ásvöllum, 25:19, eftir að hafa verið marki yfir, 12:11, að loknum fyrri hálfleik.
Fram hóf leikinn af miklum krafti og var yfir, 5:2, eftir aðeins sex mínútur. Valsliðið vann sig inn í leikinn og eftir að það jafnaði metin, 5:5, var það með frumkvæðið fram að hálfleik.
Fram varð fyrir mikilli blóðtöku þegar skammt var til loka fyrri hálfleiks. Þá fékk Emma Olsson rautt spjald og kom ekkert meira við sögu í leiknum. Hún er kjölfestan í varnarleik liðsins og aðalínumaður liðsins.
Þrátt fyrir mótlæti þá komst Framliðið yfir snemma í síðari hálfleik, 15:14. Adam var ekki lengi í Paradís. Valsmenn sneru leiknum sér í hag á ný og gáfu ekkert eftir það sem eftir var.
Sara Sif Helgadóttir átti frábæran leik í marki Vals. Eins fór Lovísa Thompson á kostum. Hún var í leikslok valin mikilvægasti leikmaður úrslitaleiksins.
Mörk Vals: Lovísa Thompson 10/2, Thea Imani Sturludóttir 6, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 4, Elín Rósa Magnúsdóttir 3, Auður Ester Gestsdóttir 1, Morgan Marie Þorkelsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 11, 42,3% – Saga Sif Gísladóttir 2, 50%.
Mörk Fram: Karen Knútsdóttir 7/4, Perla Ruth Albertsdóttir 4, Emma Olsson 3, Harpa María Friðgeirsdóttir 1, Kristrún Steinþórsdóttir 1, Hildur Þorgeirsdóttir 1, Stella Sigurðardóttir 1, Þórey Rósa Stefánsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 7/1, 24,1%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.