- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Meistarar Magdeburg greiða úr flækjunni á milli Zehnder og Erlangen

Manuel Zehnder landsliðsmaður Sviss og nú leikmaður SC Magdeburg. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

Þýska meistaraliðið SC Magdeburg hefur keypt svissneska handknattleiksmanninn Manuel Zehnder undan samningi hjá HC Erlangen. Zehnder er ætlað hlaupa í skarðið fyrir Svíann Felix Claar sem meiddist á Ólympíuleikunum og er óvíst hvenær hann verður klár í slaginn á nýjan leik. Með kaupunum hjó Magdeburg á hnút sem hefur verið í samskiptum Zehnder við HC Erlangen síðustu mánuði.

Neitaði að taka upp þráðinn

Zehnder, sem átti ár eftir af samningi sínum við Erlangen, lék sem lánsmaður hjá Eisenach á síðustu leiktíð. Hann varð óvænt markakóngur þýsku 1. deildarinnar á síðasta keppnistímabili. Þegar tímabilinu lauk í vor og Zehnder kom til baka úr vistinni í Eisenach hafi hann allt á hornum sér og sagði ekki vilja taka upp þráðinn með Erlangen. Krafist hann þess að verða leystur undan samningi sem fyrst. Forráðamenn Erlangen sögðu það ekki koma til greina enda engin sérstök ástæða fyrir hendi. Zehnder sat á hinn bóginn við sinn keip og sagðist ekki geta hugsað sér að leika framar fyrir lið félagsins.

Hafði ekki erindi sem erfiði

Zehnder fór með kröfu sína um riftun á samningi fyrir dómstóla í sumar en hafði ekki erindi sem erfiði enda hafði félagið ekki gerst brotlegt á samningnum. Einnig voru engar forsendur fyrir að Zehnder gæti sagt upp samningi sínum aðrar en að honum líkaði ekki veran hjá HC Erlangen, sem er með bækistöðvar í Nürnberg.

Útlit var fyrir að Zehnder myndi gera lítið sem ekkert á leiktíðinni því hvorki hann né félagið vildu gefa eftir. Allt sat fast þangað til forráðamenn sáu sér leik á borði þegar þeir leituðu að manni fyrir Claar.

Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp en fram hefur komið að Eiseanch, sem Zehnder lék með á síðasta tímabili, hafði ekki fjárhagslega burði til þess að reiða það fram.

Samningur Zehnder við Magdeburg er til tveggja ára.

– [email protected]

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -