- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Meistarar Vals treysta á alvöru stuðning í stórverkefni dagsins

Valsliðið heldur áfram að fagna og safna titlum undir stjórn Ágústs Þórs Jóhannssonar. Mynd/Baldur29gmail.com - Valur handbolti
- Auglýsing -

Íslandsmeistarar Vals í handknattleik kvenna ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í dag þegar liðið mætir H.C. Dunarea Braila frá Rúmeníu í Origohöllinni klukkan 17. Um er að ræða fyrri viðureign liðanna í 1. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik.

Langt er síðan jafn sterkt erlent félagslið í kvennaflokki hefur komið hingað til lands. Af 21 leikmanni á skrá hjá H.C. Dunarea Braila hafa 14 leikið landsleiki. Þess vegna gefst einstaklega gott tækifæri til þess að sjá úrvals handboltaleik í Origohöllinni frá klukkan 17 í dag á milli tveggja mjög góðra liða, Vals og H.C. Dunarea Braila.

Eftirsóknarvert hlutverk

Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals hefur legið yfir upptökum af leik H.C. Dunarea Braila síðustu daga. Hann segir liðið vera afar sterkt en um leið sé það eftirsóknarvert hlutverk sem Valsliðið er í að eiga þess kost að spegla sig við frábæran andstæðing sem hafi á að skipa leikmönnum með mikla reynslu úr evrópskum handknattleik.

Viljum sýna hvað í okkur býr

„Okkar markmið er að mæta til leiks af fullum krafti og sýna að við getum mætt jafn sterku liði af fullum þunga á heimavelli. Það verður mikil og góð áskorun fyrir okkur að bera okkur saman við jafn sterkt lið og Dunarea er,“ sagði Ágúst Þór við handbolta.is.

Thea Imani Sturludóttir verður í eldlínunni með Val í dag. Mynd/Baldur29@gmail.com

Áskorun frá leikmönnum Íslandsmeistaraliðs Vals

Djarft skref

Eftir að hafa selt heimaleikina í Evrópukeppni á síðustu árum þá steig Valur það djarfa skref að leika annan leikinn á heimavelli að þessu sinni. Kostnaðurinn við þátttökuna verður þar af leiðandi talsvert meiri er treyst á að handboltaáhugafólk, hvar í flokki sem það stendur, fjölmenni í Origohöllina klukkan 17 í dag og hvetji Valsliðið með ráðum og dáð auk þess að greiða aðgangseyri sem rennur beint í ferðasjóð Valsliðsins sem mætti vera digrari.

Fyrsta tapið – þjálfarinn rekinn fyrir Íslandsför

Viljum fylla höllina

„Vonandi sjá sem flestir sér fært að koma og styðja við bakið á stelpunum, utan vallar sem innan. Það kostar mikið að taka þátt en með því að mæta í Origohöllina sýnir fólk í verki að það styður við bakið á íslensku liði í Evrópukeppni og sjá um leið frábæran handbolta. Vonandi fyllum við húsið og fáum alvöru stemningu. Við lofum klassa umgjörð, líkri þeirri sem var hjá karlaliði Vals í Evrópuleikjunum á síðustu leiktíð. Það verður enginn svikinn af því að koma í Origohöllina,“ sagði Ágúst Þór ennfremur.

Sameina grimmd og gleði

„Innan okkar hóps ríkir mikil eftirvænting að taka þátt í þessu verkefni. Nú snýst málið hjá okkur um að stilla spennustigið rétt og mæta létt og fersk til leiks. Ná að sameina grimmd og gleði samhliða því að njóta þess að taka þátt í leiknum,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Íslandsmeistara Vals við handbolta.is.

Miðasala á leik Vals og H.C. Dunarea Braila.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -