Evrópumeistarar þriggja síðustu ára, Vipers Kristiansand, geta nánast afskrifað vonir sínar um að verja Evrópumeistaratitilinn í ár eftir sjö marka tap fyrir ungverska liðinu Györ, 30.23, í á heimavelli um helgina í átta lið úrslitum Meistaradeildar kvenna. Vipers-liðið er ekki eins sterkt og síðustu ár og nýr þjálfari ekki náð upp sama dampi og forverinn. Víst er að ungverska meistaraliðið er ólíklegt til að tapa með miklum mun á heimavelli þegar síðari viðureignin fer fram næstu helgi.
Strax í vanda
Vipers lenti snemma sjö mörkum undir, 9:2, og bar aldrei sitt barr eftir það. Anna Vyakhireva var markahæst með fjögur mörk. Markaskorið dreifðist á milli 11 leikmanna Györ. Ana Gros var markahæst með átta mörk. Norsku landsliðskonurnar Kari Brattset Dale og Veronika Kristiansen skoruðu sex mörk hvor en fjórar norskar landsliðskonur leika með Györ.
Ógnarstekt franskt lið
Hið ógnarsterka lið Metz stendur afar vel að vígi eins og Györ eftir fyrri leikinn við CSM Búkarest. Metz undirstrikaði að árangur liðsins í Meistaradeildinni er ekki tilviljun með því að vinna CSM með þriggja marka mun í Búkarest, 27:24. Franska liðið var áberandi sterkara á síðustu 10 mínútunum. Hatadou Sako átti stórleik í marki Metz, varði 18 skot. Chloé Valentini var markahæst með sjö mörk ásamt Kristine Jørgensen og Sarah Bouktit.
Eins og oft áður var Cristina Neagu markahæst hjá CSM með níu mörk. Hún hefur þar með skorað 1.126 mörk í Meistaradeild Evrópu frá upphafi og er markahæst.
Reistad átti stórleik
Henny Reistad fór á kostum og skoraði m.a. 10 mörk þegar Esbjerg vann nauman sigur á FTC í Búdapest, 26:25. Andrea Lekic skoraði sjö mörk fyrir FTC en sagan er liðinu ekki mjög hagstæð með tilliti til síðari viðureignarinnar á Jótlandi. Esbjerg-liðið hefur sjaldan látið tækifæri á sæti í undanúrslitum Meistaradeildar sér út greipum ganga hafi liðið unnið leik á útivelli í átta liða úrslitum.
Tímamót hjá Bietigheim
Þýska meistaraliðið Bietigheim fer með fjögurra marka forskot í farteskinu til Óðinsvéa á Fjóni eftir sigur á Odense Håndbold, 30:26. Biegtigheim hefur aldrei áður unnið Odense. Þýsku meistararnir voru með yfirhöndina allan leikinn og náðu mest sjö marka forskoti í síðari hálfleik, 23:16.
Antje Döll var markahæst með átta mörk og Kaba Gassama Cissokho var næst með sex mörk fyrir Bietigheim, Andrea Hansen markahæst hjá Odense með sex mörk.
Úrslit:
Vipers Kristiansand – Györ 23:30 (9:15).
Ferencváros (FTC) – Esbjerg 25:26 (11:13).
Bietigheim – Odense 30:26 (15:12).
CSM Búkarest – Metz 24:27 (14:15).
Síðari leikir átta liða úrslita fara fram næstu helgi.