Heimsmeistarar Danmerkur í handknattleik karla hófu titilvörnina í kvöld með flugeldasýningu í Jyske Bank Boxen í Herning á Jótlandi. Þeir unnu Alsírbúa með 25 marka mun, 47:22, í B-riðli keppninnar. Fyrr í dag unnu Ítalir liðsmenn Túnis, 32:25, í fyrsta leik ítalsks landsliðs á heimsmeistaramóti í 28 ár. Hlynur Leifsson var eftirlitsmaður á leik Ítalíu og Túnis.
Danir léku við hvern sinn fingur að viðstöddum þúsundum landa sinna í leiknum í kvöld. Þeir skoruðu 20 mörk í fyrri hálfleik og gerðu enn betur í síðari hálfleik.
Þetta var 29. leikur Dana í röð á heimsmeistaramóti án taps, fjórum fleiri leikir en næsta landsliðs á eftir, Frakklandi, náði á sínum tíma.
Varði eins og berserkur
Alsíringar áttu ekki sjö dagana sæla gegn danska landsliðinu að þessu sinni, e.t.v. eins og við mátti búast. Emil Nielsen lék þá grátt í danska markinu. Hann varði 17 skot, 47%, þó stóð hann ekki vaktina allan leikinn.
Mathias Gidsel var markahæstur í danska landsliðinu með 10 mörk í 15 skotum. Emil Jakobsen var næstur með átta mörk og Simon Pytlick skoraði sex sinnum. Ayyoub Abdi var atkvæðamestur leikmanna alsírska landsliðsins sem sex mörk.
Sannfærandi hjá Ítölum
Ítalía, sem óvænt komst á HM í vor með því að leggja Svartfellinga í tvígang, vann sannfærandi sigur á Túnisbúum í kvöld, 32:25, en liðin eru í riðli með Dönum og Alsírbúum. Þetta er annar sigur Ítala á HM í sögunni. Þeir eru með í annað sinn. Á HM 1997 var ítalska landsliðið með í fyrsta sinni og vann einn leik við Argentínu og gerði jafntefli við Noreg en tapaði í þrígang.
Í kvöld lék enginn vafi á að ítalska liðið var sterkara. Það var sex mörkum yfir í hálfleik, 17:11.
Spöruðu kraftana og steinlágu
Í C-riðli í Poreč í Króatíu unnu Evrópumeistarar Frakklands stórsigur á Katar, 37:19. Katarbúar tefldu ekki fram sínu allra sterkasta liði í kvöld. Leikmenn voru sparaðir fyrir átökin gegn Austurríki og Kúveit. Í báðum leikjum gera Katarbúar sér vonir um vinning tefli þeir fram sinni vöskustu sveit. Alltént er það mat Veselin Vujovic landsliðsþjálfara Katar.
Frakkar reyndi einnig að spara kraftana enda þekktir fyrir að fara rólega af stað á stórmótum. Thibaud Briet var markahæstur með sjö mörk. Aymeric Minne var næstur með fimm mörk.
Í hinni viðureign dagsins í C-riðli lagði austurríska landsliðið lið Kúveit, 37:26. Það var leikur kattarins að músinni eins og segja má um þrjá af fjórum fyrstu leikjum dagsins á HM karla 2025.