- Auglýsing -
- Auglýsing -

Meistararnir hófu árið með stórsigri

Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals leggur á ráðin með leikmönnum sínum. Mynd/Raggi Óla
- Auglýsing -

Valur vann stórsigur á ÍR, 35:22, í fyrsta leik ársins í Olísdeild kvenna í handknattleik í Skógarseli eftir hádegið í dag. Staðan í hálfleik var 18:11, Val í vil sem hafði talsverða yfirburði í leiknum í 45 mínútur.

Með sigrinum komst Valur í efsta sæti deildarinnar, tveimur stigum á undan Haukum, sem eiga leik við Fram síðdegis. ÍR er í fimmta sæti deildarinnar með 10 stig, fimm stigum á undan KA/Þór sem situr í sjötta sæti.


ÍR-ingar komu Valsliðinu í opna skjöldu með framliggjandi vörn sem varð valdur að mörgum mistökum Valsliðsins. Mistökin færðu ÍR-liðinu hvert hraðupphlaupið á fætur öðru og gott forskot, m.a. 7:3 og 9:5 eftir 11 mínútna leik. Loks þegar Íslandsmeisturunum tókst að koma skikki á leik sinn sneru þeir taflinu við. ÍR komst ekki áleiðis í sókninni og fékk engin hraðaupphlaup. Axarsköftum Valsara í sókninni fækkaði. Á síðustu 19 mínútum fyrri hálfleiks skoraði Valur 13 mörk gegn tveimur frá ÍR.

Einstefna var í síðari hálfleik. Valsliðið sýndi tennurnar og munurinn jókst jafnt og þétt eftir því sem á leikinn leið. Varnarleikur Vals var afar góður og Hafdís Renötudóttir markvörður varði vel, m.a. þrjú vítaköst.


Mörk ÍR: Karen Tinna Demian 8/2, Sara Dögg Hjaltadóttir 6, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 3, Sigrún Ása Ásgrímsdóttir 2, Sylvía Sigríður Jónsdóttir 2, Hanna Karen Ólafsdóttir 1.
Varin skot: Ísabella Schöbel Björnsdóttir 1, 5,6% – Hildur Öder Einarsdóttir 0.

Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 9/5, Thea Imani Sturludóttir 7, Lilja Ágústsdóttir 7, Elín Rósa Magnúsdóttir 6, Hildigunnur Einarsdóttir 3, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 1, Auður Ester Gestsdóttir 1, Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 9/3, 42,9% – Sara Sif Helgadóttir 3, 23,1%.

Staðan í Olísdeild kvenna – næstu leikir.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í Skógarseli í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -