Íslandsmeistarar Fram sýndu nýliðum Þórs enga miskunn í viðureign liðanna í annarri umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Lambhagahöllinni í dag. Framliðið keyrði upp hraðann í síðari hálfleik og vann öruggan sigur, 36:27, eftir að hafa verið marki undir í hálfleik, 16:15. Max Emil Stenlund innsiglaði sigur Fram með þrumuskoti í markvinkilinn á síðustu sekúndu.
Fyrri hálfleikur var í járnum og ljóst að Þórsarar ætluðu að freista þess að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í sigurleiknum við ÍR í fyrstu umferð. Þeim tókst að veita Fram ágæta keppni í fyrri hálfleik með skynsömum leik og baráttugleði í vörninni.
Allt annað Fram-lið mætti til leiks í síðari hálfleik. Ákefðin og baráttan var meiri. Varnarleikurinn batnaði og Breki Hrafn Árnason markvörður hrökk í gang. Jafnt og þétt kom gæðamunurinn á liðunum í ljós. Þórsarar réðu ekkert við ákefðina í Framliðinu. Leiðir liðanna skildi fljótlega og þegar við tók um 10 mínútna kafli þar sem sóknarleikur Þórs var í handaskolum með hverjum mistökunum á eftir öðrum þá fór sú litla von sem e.t.v. bjó meðal leikmanna Þórs að þeir gætu komið til baka. Framarar settu á fulla ferð og stungu nýliðana af og sýndu mátt sinn og megin.
Ekki síst var varnarleikur Fram góður í síðari hálfleik sem varð þess valdandi að Þórsarar léku sig í þrot hvað eftir annað enda skoraði liðið ekki nema 11 mörk.
Igor Chiseliov lék sinn fyrsta leik með Þór eftir að hann fékk leikheimild í vikunni. Hann virðist ágætur skotmaður en virðist vanta töluvert upp á formið, enn sem komið er.
Nikola Radovanovic markvörður Þórs náði sér ekki á sama strik og gegn ÍR. Ljóst var að leikmenn Fram voru búnir að finna veiku blettina á kappanum.
Færeyingurinn Dánjal Ragnarsson lék afar vel fyrir Fram. Einnig Rúnar Kárason og Marel Baldvinsson þótt sá síðarnefdi hafi ekki skoraði mikið þá vann hann afar vel fyrir liðið.
Mörk Fram: Dánjal Ragnarsson 7, Ívar Logi Styrmisson 6/2, Rúnar Kárason 5, Eiður Rafn Valsson 4, Kjartan Þór Júlíusson 2, Theodór Sigurðsson 2, Dagur Fannar Möller 2, Lúðvík Thorberg B Arnkelsson 2, Erlendur Guðmundsson 2, Marel Baldvinsson 2, Max Emil Stenlund 1.
Varin skot: Breki Hrafn Árnason 11/1, 37,9%.
Mörk Þórs: Hákon Ingi Halldórsson 7, Hafþór Már Vignisson 6, Igor Chiseliov 5, Brynjar Hólm Grétarsson 3, Aron Hólm Kristjánsson 2, Oddur Gretarsson 2, Sigurður Ringsted Sigurðsson 2.
Varin skot: Nikola Radovanovic 7, 22,6% – Patrekur Guðni Þorbergsson 1, 9,2%.