- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Meistararnir rúlluðu yfir nýliðana í síðari hálfleik

- Auglýsing -


Íslandsmeistarar Fram sýndu nýliðum Þórs enga miskunn í viðureign liðanna í annarri umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Lambhagahöllinni í dag. Framliðið keyrði upp hraðann í síðari hálfleik og vann öruggan sigur, 36:27, eftir að hafa verið marki undir í hálfleik, 16:15. Max Emil Stenlund innsiglaði sigur Fram með þrumuskoti í markvinkilinn á síðustu sekúndu.


Fyrri hálfleikur var í járnum og ljóst að Þórsarar ætluðu að freista þess að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í sigurleiknum við ÍR í fyrstu umferð. Þeim tókst að veita Fram ágæta keppni í fyrri hálfleik með skynsömum leik og baráttugleði í vörninni.

Allt annað Fram-lið mætti til leiks í síðari hálfleik. Ákefðin og baráttan var meiri. Varnarleikurinn batnaði og Breki Hrafn Árnason markvörður hrökk í gang. Jafnt og þétt kom gæðamunurinn á liðunum í ljós. Þórsarar réðu ekkert við ákefðina í Framliðinu. Leiðir liðanna skildi fljótlega og þegar við tók um 10 mínútna kafli þar sem sóknarleikur Þórs var í handaskolum með hverjum mistökunum á eftir öðrum þá fór sú litla von sem e.t.v. bjó meðal leikmanna Þórs að þeir gætu komið til baka. Framarar settu á fulla ferð og stungu nýliðana af og sýndu mátt sinn og megin.

Ekki síst var varnarleikur Fram góður í síðari hálfleik sem varð þess valdandi að Þórsarar léku sig í þrot hvað eftir annað enda skoraði liðið ekki nema 11 mörk.

Igor Chiseliov lék sinn fyrsta leik með Þór eftir að hann fékk leikheimild í vikunni. Hann virðist ágætur skotmaður en virðist vanta töluvert upp á formið, enn sem komið er.

Nikola Radovanovic markvörður Þórs náði sér ekki á sama strik og gegn ÍR. Ljóst var að leikmenn Fram voru búnir að finna veiku blettina á kappanum.

Skarð var fyrir skildi hjá Þór að línumaðurinn sterki, Þórður Tandi Ágústsson, tók út leikbann.

Færeyingurinn Dánjal Ragnarsson lék afar vel fyrir Fram. Einnig Rúnar Kárason og Marel Baldvinsson þótt sá síðarnefdi hafi ekki skoraði mikið þá vann hann afar vel fyrir liðið.


Mörk Fram: Dánjal Ragnarsson 7, Ívar Logi Styrmisson 6/2, Rúnar Kárason 5, Eiður Rafn Valsson 4, Kjartan Þór Júlíusson 2, Theodór Sigurðsson 2, Dagur Fannar Möller 2, Lúðvík Thorberg B Arnkelsson 2, Erlendur Guðmundsson 2, Marel Baldvinsson 2, Max Emil Stenlund 1.
Varin skot: Breki Hrafn Árnason 11/1, 37,9%.

Mörk Þórs: Hákon Ingi Halldórsson 7, Hafþór Már Vignisson 6, Igor Chiseliov 5, Brynjar Hólm Grétarsson 3, Aron Hólm Kristjánsson 2, Oddur Gretarsson 2, Sigurður Ringsted Sigurðsson 2.
Varin skot: Nikola Radovanovic 7, 22,6% – Patrekur Guðni Þorbergsson 1, 9,2%.

Tölfræði HBStatz.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -