Íslandsmeistarar KA/Þórs hófu titilvörnina í Olísdeild kvenna í dag með naumum sigri á ÍBV, 26:24, í KA-heimilinu í hnífjöfnum og skemmtilegum leik. Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 11:11.
Segja má að leikurinn hafi verið nánast hnífjafn frá upphafi. ÍBV náði einu sinni tveggja marka forskoti í fyrri hálfleik. Í þeim síðari má segja að liðin hafi haldist í hendur þar til þrjár mínútur voru til leiksloka og staðan var jöfn, 23:23. KA/Þórsliðið var örlítið sterkara á lokakaflanum og fagnaði sigri í upphafsleik Olísdeildarinnar.

Athygli vekur að Rut Arnfjörð Jónsdóttir var ekki í leikmannahópi KA/Þórs í dag.
Mörk KA/Þórs: Martha Hermannsdóttir 9/3, Aldís Ásta Heimisdóttir 4, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 3, Ásdís Guðmundsdóttir 3, Rakel Sara Elvarsdóttir 2, Unnur Ómarsdóttir 2, Sofie Söberg Larsen 2, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 11, 33,3%.
Mörk ÍBV: Sunna Jónsdóttir 6, Marija Jovanovic 6, Harpa Valey Gylfadóttir 3, Karolina Olszowa 3, Lina Cardell 3, Martha Wawrzykowska 2, Elísa Elíasdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 13, 34,2%.
Öll tölfræði leiksins er að finna hjá HBStatz.
