„Þetta var baráttuleikur tveggja góðra liða. Fyrir leikinn þá kallaði ég eftir því meðal minna manna að þeir svöruðu fyrir frammistöðuna í síðasta leik. Hún var ekki í samræmi við það sem við viljum standa fyrir. Mér fannst menn svara því kalli hér í kvöld,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Vals, í samtali við handbolta.is eftir þriggja marka sigur, 28:25, á Haukum í 4. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í gærkvöld.
Eftir sigurinn sitja Haukar og Valur jöfn að stigum í öðru til þriðja sæti Olísdeildar með sex stig hvort.
„Að þessu sinni var barátta í mönnum, slegist um fráköstin og einbeiting, auk þess sem Einar Baldvin varði vel í markinu, reyndar eins og Björgvin Páll hinum megin vallarins. En það fór að falla með okkur nokkur atriði þegar kom fram í síðari hálfleik. Þá náðum við forystu sem gerði að verkum að Hauka komust í þá stöðu að elta okkur. Það er góð staða að vera í og við réðum við hana,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Vals.