- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Mér mikils virði að finna traustið“

Díana Dögg Magnúsdóttir t.v. ásamt samherja sínum í Zwickau-liðinu með verðlaunagripinn fyrir deildarmeistaratitilinn í 2. deild. Mynd/BSV Sachsen Zwickau
- Auglýsing -

„Það hefur ríkt mikil eftirvænting innan félagsins í allt sumar yfir að fá loksins tækifæri á að vera á ný í bestu deild þýska handboltans,“ segir Díana Dögg Magnúsdóttir handknattleikskona hjá þýska liðinu BSV Sachsen Zwickau þegar handbolti.is sló á þráðinn til hennar. Keppni í þýsku 1. deildinni hefst á morgun og verður BSV Sachsen Zwickau meðal þátttakenda í deildinni í fyrsta sinn í aldarfjórðung eftir að hafa unnið 2. deild með glæsibrag í vor.

Spennandi og krefjandi

„Það verður ótrúlega gaman, spennandi en um leið mjög krefjandi fyrir okkur að leika í þessari deild. Við eigum hinsvegar mjög góða möguleika gegn flestum liðum deildarinnar,“ segir Díana Dögg sem gekk til liðs við BSV Sachsen Zwickau fyrir ári síðan frá Val.

Ég hef í mér að hafa þor til þess að taka stórar ákvarðanir inni á leikvellinum

Byrjað á grannaslag

„Reynt hefur verið eftir megni að styrkja liðið fyrir átökin sem framundan eru. Sumarfríið var stutt og mikið æft og leiknir æfingaleikir. Við hlökkum til að byrja og leggjum mikið upp úr að hefja keppnina sem fyrst. Ekki spillir fyrir eftirvæntingunni að við mætum Union-Halle Neustadt í fyrsta umferð á heimavelli. Segja má að um grannaslag verði að ræða,“ segir Díana Dögg en m.a. dvaldi liðið í viku á Íslandi í æfingbúðum í Vestmannaeyjum, fæðingabæ Díönu, í um vikutíma í byrjun ágúst.

Samhliða handboltanum vinnur Díana Dögg sem verkefnastjóri á verkfræðistofu og hefur þar af leiðandi í mörg horn að líta. Til viðbótar er hún á leið í meistaranám í flugvélaverkfræði og er sannarlega ekki einhöm.
Díana Dögg Magnúsdóttir í leik með Zwickau. Mynd/BSV Sachsen Zwickau


Leikmenn BSV Sachsen Zwickau eru hvergi bangnir þótt þeir séu í hópi nýliða deildarinnar og oft eigi nýliðar erfitt uppdráttar. Díana Dögg segir að til að byrja með sé markmiðið að vera um miðja deild. „Við teljum okkur vera með lið sem getur unnið stig af öllum liðunum nema kannski af þeim tveimur allra bestu, Dortmund og Bietigheim. Ef við trúum á þetta þá er alltaf möguleiki.“

Mikilvægur persónulegur áfangi

Díana Dögg segir það ennfremur vera stóran áfanga fyrir sig að vera í liði í efstu deild í Þýskalandi.

„Það er stórt fyrir mig að hafa unnið mér inn sæti í byrjunarliðinu og vera mikilvægur leikmaður í liðinu sem fór upp úr deildinni í vor. Þjálfararnir hafa mikla trú á mér. Ég er með rödd innan liðsins og get og má segja mínar skoðanir. Um leið get ég tekið stjórn á vellinum. Ég hef í mér að hafa þor til þess að taka stórar ákvarðanir inni á leikvellinum þegar mikið liggur við. Þjálfararnir vita það og treysta á mig. Það er mikils virði að finna traustið,“ segir Díana Dögg Magnússon, landsliðskona í handknattleik og leikmaður BSV Sachsen Zwickau.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -