Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 18 ára og yngri, tapaði fyrir Þýskalandi með fimm marka mun, 31:26, í annarri umferð F-riðils heimsmeistaramótsins í Chuzhou í Kína í morgun. Íslenska liðið var með yfirhöndina í 50 mínútur í leiknum í morgun en þýska liðið var sterkara á endasprettinum. Allt annað var að sjá til íslenska liðsins í morgun en fyrir tveimur sólarhringum þegar það lék við Tékka.
Eftir tvo tapleiki er ljóst að íslenska landsliðið leikur um sæti 17 til 32 á heimsmeistaramótinu. Tékkar og Þjóðverjar hreppa tvö efstu sæti riðilsins og leika um sæti eitt til sextán.
Næsti leikur Íslands á mótinu verður gegn landsliði Gíneu í fyrramálið að íslenskum tíma og skiptir verulegu máli. Sigurliðið verður í hópi þeirra sem keppir um sæti 17 til 24 en tapliðið verður í hópi þeirra sem verða í sætum 25 til 32.
Komu Þjóðverjum í opna skjöldu
Íslenska liðið lék afar vel í fyrri hálfleik og virtist koma þýska liðinu í opna skjöldu, ekki síst með afar góðum varnarleik. Ísland var með yfirhöndina allan hálfleikinn, t.d. 2:0, 7:4, 9:5, 11:8, 14:9, en aðeins var eins marks forskot í hálfleik, 15:14.
Íslenska liðið hélt frumkvæði framan af síðari hálfleik. Þýska liðinu tókst að jafna metin hvað eftir annað en tókst ekki að komast yfir fyrr en 11 mínútur voru eftir, 23:24. Það sem eftir var leiksins jók þýska liðið forskot sitt, jafnt og þétt.
Arna Karitas meiddist
Íslenska liðið varð fyrir miklu áfalli 13 mínútum fyrir leikslok þegar Arna Karitas Eiríksdóttir meiddist á læri og kom ekkert meira við sögu. Hún hafði stýrt sóknarleik Íslands af yfirvegun og gert mikinn usla í þýsku vörninni. Meiðsli Örnu Karitasar sló liðsfélaga hennar nokkuð út af laginu.
Mörk Íslands: Arna Karitas Eiríksdóttir 7/4, Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 4, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 3, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 3, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 2, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 2, Guðrún Hekla Traustadóttir 2, Ágústa Rún Jónasdóttir 1, Lydía Gunnþórsdóttir 1/1, Þóra Hrafnkelsdóttir 1.
Varin skot: Ingunn María Brynjarsdóttir 7, 26%, Elísabet Millý Elíasardóttir 0, Ingibjörg Lovísa Hauksdóttir 1.
Mörk Þýskalands: Marlene Tucholke 6/1, Jana Walther 6, Marleen Lern 5, Aylin Bornhardt 4, Kim Ott 3/1, Alissa Werle 2, Frida Heimann 2, Laura Sophie Klocke 2, Leika Ott 1.
Varin skot: Lena Marie Lindemann 9, 35% – Lina Steinecke 1, 10%.
HMU18 kvenna – leikjadagskrá, riðlakeppni, úrslit, staðan
HM18, streymi: Ísland – Þýskaland, kl. 6
Handbolti.is var snemma á fótum og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.