Íslandsmeistarar KA/Þórs hleyptu enn meiri spennu í toppbaráttu Olísdeildar kvenna í handknattleik í kvöld. KA/Þór vann öruggan sigur á ÍBV, 34:24, og er aðeins tveimur stigum á eftir Fram og einu frá Val þegar þrjár umferðir eru eftir. ÍBV situr hinsvegar áfram í fimmta sæti, stigi á eftir Haukum en á leik til góða.
Viðureignin í KA-heimilinu varð aldrei sá spennuleikur sem vonast var eftir.
Nokkuð jafnt var á með liðunum framan af og þegar Andri Snær Stefánsson þjálfari KA/Þórs tók sakleysislegt leikhlé eftir 24 mínútur var munurinn aðeins eitt mark, 12:11, fyrir KA/Þór. Í einni svipan eftir hléið var munurinn skyndilega orðinn fjögur mörk, 15:11. Þegar fyrri hálfleikur var úti var forskot Íslandsmeistaranna fimm mörk, 18:13.
Síðari hálfleikur var einstefna af hálfu KA/Þórsliðsins sem jafnt og þétt bætti við forskot sitt. Eyjaliðinu féll allur ketill í eld. Ekki bætti úr skák að Sunna Jónsdóttir meiddist en hún var eins og stundum áður akkerið í leik ÍBV.
Rakel Sara Elvarsdóttir fór á kostum hjá KA/Þór, skoraði 11 mörk í 14 skotum. Rut Arnfjörð Jónsdóttir lék einnig afar vel og skoraði m.a. 10 mörk.
Hulda Bryndís Tryggvadóttir var ekki í leikmannhópi KA/Þórs í kvöld. Ekki kom fram í lýsingu KAtv frá leiknum hvernig á fjarveru hennar stóð.
Leikir þriggja efstu liðanna sem eftir eru: Fram: Afturelding (ú), Valur (h), ÍBV (ú). Valur: Haukar (h), Fram (ú), KA/Þór (h). KA/Þór: HK (h), Afturelding (h), Valur (ú).
Mörk KA/Þórs: Rakel Sara Elvarsdóttir 11, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 10/2, Unnur Ómarsdóttir 4, Aldís Ásta Heimisdóttir 3, Ásdís Guðmundsdóttir 2, Hildur Lilja Jónsdóttir 1/1, Anna Mary Jónsdóttir 1, Martha Hermannsdóttir 1, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 8, 28,6% – Sunna Guðrún Pétursdottir 2, 33,3%.
Mörk ÍBV: Sunna Jónsdóttir 5, Marija Jovanovic 5/5, Harpa Valey Gylfadóttir 5, Lina Cardell 3, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 3, Elísa Elíasdóttir 3.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 7, 23,3% – Erla Rós Sigmarsdóttir 2, 15,4%.
Öll tölfræði leiksins er hjá HBstatz.
Stöðu og næstu leiki í Olísdeild kvenna er að finna hér.