„Við erum öll staðráðin í að ljúka þátttöku okkar á HM á góðan hátt. Það er mikill hugur í hópnum eftir mjög góða ferð hjá samtilltu liði,“ segir Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í handknattleik kvenna við handbolta.is í aðdraganda síðasta leiks íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu í handknattleik kvenna sem fram fer í kvöld. Íslenska liðið mætir færeyska landsliðinu í síðasta leik milliriðils tvö í Westfalenhalle í Dortmund klukkan 19.30.
Liðin þekkjast mjög vel
„Við ætlum að njóta þess að leika kveðjuleik okkar á HM gegn færeyskum vinkonum okkar, ef við getum orðað það sem svo. Við þekkjum þær orðið ágætlega eftir að hafa leikið gegn þeim nokkrum sinnum á síðustu fáum árum. Þær eru með mjög skemmtilegt lið sem hefur náð frábærum úrslitum,“ segir Arnar og bætir við.
Vel samæft lið
„Færeyska liðið er orðið mjög vel samæft. Sami hópur hefur að grunni til verið saman um langt skeið þótt ungar séu. Meðal annars hefur liðið þróað mjög sóknarleik sinn með sjö á sex og náð að gera það afar vel,“ segir Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í handknattleik kvenna.
Fleiri leikmenn færeyska landsliðsins en þess íslenska leika með félagsliðum utan heimalandsins.
Sögulegur leikur frændþjóða í Westfalenhalle í kvöld


