„Frábær frammistaða í dag,“ sagði Einar Andri Einarsson annar þjálfari U20 ára landsliðsins við handbolta.is í dag eftir annan sigur íslenska landsliðsins á Evrópumótinu í dag. Að þessu sinni lágu Pólverjar í valnum á sannfærandi hátt, 37:32, í annarri umferð riðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik í Slóveníu.
Vorum með öll tök á leiknum
„Það var smá hökkt í byrjun en þegar kom fram í fyrri hálfleikinn þá náðum við tökum á okkar leik. Við skiptum yfir í 5/1 vörn sem sló aðeins vopnin úr höndum pólska liðsins. Eftir miðjan fyrri hálfleik þá vorum við með öll tök á leiknum allt til leiksloka,“ sagði Einar Andri sem var mjög ánægður með sóknarviljann í liðinu sem hefur skoraði 86 mörk í tveimur fyrstu leikjum mótsins.
Sóknarkraftur og orka
„Það er mikill sóknarkraftur og orka í strákunum. Þeir eru duglegir að hlaupa. Um leið og varnarleikurinn er betri þá fylgja hraðaupphlaupin með. Þetta var bara virkilega vel gert. Ég vil hrósa strákunum. Þeir hafa allir sem einn staðið sig mjög vel og sýnt að þeir vilja standa sig. Liðsheildin er mjög góð,“ sagði Einar Andri sem þjálfar íslenska liðið ásamt Halldóri Jóhanni Sigfússyni.
Mikilvægur leikur á laugardag
Framundan er eins dags hlé áður en kemur að úrslitaleik um efsta sæti riðilsins við Svía á laugardaginn klukkan 14.40. Rík áhersla verður lögð á vandaðan undirbúning fyrir leikinn á laugardaginn sem skiptir afar miklu máli. Sigurliðið öðlast sæti í átta liða úrslitum. Það verður til mikils að vinna.
Sjá einnig:
Öruggur sigur á Pólverjum – uppgjör við Svía á laugardag
EMU20 karla: Leikir, úrslit og staðan, riðlakeppni