- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Mín brattasta brekka hingað til“

Gílsi Þorgeir Kristjánsson er kominn á fulla ferð með Magdeburg eftir meiðsli. Mynd/Magdeburg
- Auglýsing -

Handknattleiksmaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson segir að framundan sé „hans brattasta brekka“ til þessa á handknattleiksferlinum sem hefur verið þyrnum stráður þótt hann hafi ekki verið langur. Gísli Þorgeir er staðráðinn í að klífa þrítugan hamarinn og koma sterkari til leiks á vellinum en nokkru sinni fyrr.

„Eftir öll mín axlarmeiðsli undanfarin 3 ár varð ég því miður fyrir þeim leiðindum að fara úr axlarlið í gær og mun ég þurfa fara í aðgerð enn eina ferðina. Verður þetta mín brattasta brekka hingað til og ætla ég að snýta henni. Takk fyrir allan stuðninginn og kveðjurnar,“ skrifaði Gísli Þorgeir í færslu á Instagram í gær sem hann veitti handbolta.is góðfúslegt leyfi til þess að birta.

Ítrekað átti í axlarmeiðslum

Eins og fram kom í fréttum á sunnudaginn þá fór Gíslí Þorgeir úr vinstri axlarlið í leik með Magdeburg í þýsku 1. deildinni á sunnudaginn. Hann féll þá illa á vinstri öxlina eftir að hafa brotist í gegnum vörn Füchse Berlin og komið Magdeburg þremur mörkum yfir, 24:21. Var hann fluttur sárþjáður af leikvelli. Gísli Þorgeir hefur ítrekað orðið fyrir erfiðum meiðslum á öxlum á síðustu árum og gengist undir erfiðar aðgerðir og endurhæfingar af þeim sökum. M.a. hefur hann í tvígang áður farið úr vinstri axlarlið, síðast fyrir 13 mánuðum. Þá fór hann undir aðgerð hér á landi.

Standa þétt að baki Gísla


Bennet Wiegert, þjálfari Magdeburg, sagði eftir sigurleikinn á sunnudaginn að meiðsli Gísla Þorgeirs skyggðu á góðan sigur liðsins. Sigurinn væri hjóm eitt og hugur hans og leikmanna liðsins væri hjá Gísla Þorgeiri. Wiegert sagði ennfremur að félagið stæði þétt við bakið á Gísla Þorgeiri hér eftir sem hingað til.

Fyrsta verk Wiegert eftir leikinn var að heimsækja Gísla Þorgeir á sjúkrahúsið í Magdeburg þar sem hann gekkst undir rannsókn eftir að hafa verið kippt í axlarliðinn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -