- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Misgóð úrslit hjá íslensku landsliðskonunum

Eyjakonurnar Sandra Erlingsdóttir og Díana Dögg Magnúsdóttir leika með Metzingen og BSV Sachsen Zwicka í Þýskalandi. Þær voru andstæðingar á vellinum í kvöld. Mynd/Aðsend
- Auglýsing -

Það gekk misvel hjá liðum landsliðskvennanna Díönu Daggar Magnúsdóttur og Söndru Erlingsdóttur í þýsku 1. deildinni í gær. Sandra og samherjar í TuS Metzingen unnu silfurhafa bikarkeppninnar, Bernsheim/Auerbach með minnsta mun í Bensheim, 32:31, í sannkölluðum hörkuleik.

Á sama tíma tapaði lið Díönu Daggar með sjö marka mun í heimsókn til Borussia Dortmund. Díana Dögg var sýnt rauða spjaldið eftir sjö mínútur í síðari hálfleik þegar henni var vísað af leikvelli í þriðja sinn. Dómgæslan í leiknum þótti æði umdeild á báða bóga.


Díana Dögg skoraði eitt mark, átti þrjár stoðsendingar, skapaði tvö færi, vann eitt vítakast, stal boltanum þrisvar og hirti eitt frákast áður en kom að sögulokum hennar í leiknum þegar ríflega þriðjungur var eftir af leiktímanum.


„Þær klipptu mig dálítið út alveg frá byrjun,“ sagði Díana Dögg við handbolta.is. „Vörnin var ekki góð hjá okkur að þessu sinni. Upphafskaflinn var ágætur hjá okkur en síðan fórum við að klikka á færum,“ sagði Díana Dögg ennfremur. Markvarslan hefur verið í lágmarki hjá BSV Sachsen Zwickau allt tímabilið og verið Akkilesarhæll liðsins.

Næsti leikur BSV Sachsen Zwickau verður við Bernsheim/Auerbach í Zwickau á laugardaginn. Viku síðar stendur fyrir dyrum heimsókn til Oldenburg.

Stigi frá fjórða sæti

Sandra skoraði eitt mark í baráttusigri TuS Metzingen í íþróttahöllinni í Bensheim, 32:31. Ekki er skráð á Söndru stoðsending sem er óvenjulegt. Hún geigaði á tveimur skotum. TuS Metzingen er í fimmta sæti deildarinnar með 24 stig eftir 19 leiki og er aðeins stigi á eftir Blomberg-Lippe sem leikið hefur einum leik fleira.

Aftur á útivöll

Tus Metzingen leikur aftur á útivelli um næstu helgi. Þá verða liðsmenn Oldenburg sóttir og heim. Sandra og samherjar munu þá freista þess að hefna fyrir tapið í leiknum um bronsið í bikarkeppninni fyrir hálfum mánuði. Þar á eftir koma leikmenn Borussia Dortmund í heimsókn til suður hluta Þýskalands þar sem Tus Metzingen er með bækistöðvar.


BSV Sachsen Zwickau er í 11. sæti með 12 stig en 14 lið eru í deildinni. Liðið á sex leiki eftir. Alls eru leiknar 26 umferðir. Eitt lið fellur og næst neðsta liðið tekur þátt í umspili við lið úr 2. deild. Tus Metzingen á eftir sjö leiki.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -