„Ég var mjög ánægður með strákana, ekki síst þar sem ég vissi ekki alveg hvað myndi gerast eftir það sem á undan er gengið hjá okkur,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Íslandsmeistara Vals, eftir sigur á Haukum, 28:24, í meistarakeppni HSÍ í Origohöllinni í kvöld.
„Ég var ánægður með undirbúningstímabilið hjá okkur þangað til við urðum að fara í sóttkví fyrir rúmri viku. Það setti undirbúninginn aðeins úr skorðum en sem betur fer hefur sóttkvíin ekki komið mjög niður á okkur,“ sagði Snorri Steinn sem var afar ánægður með að fá góðan leik áður en liðið heldur út til Króatíu í fyrramálið til tveggja leikja í Evrópukeppninni á föstudag og laugardag.
Vonandi eru meiðsli Einars ekki alvarleg
„Úr því að við unnum leikinn þá mæta menn að minnsta kosti glaðir hingað á ný síðla nætur í ferðina sem framundan er. Ég vona bara að Einar Þorsteinn [Ólafsson] hafi sloppið við alvarleg meiðsli og verði klár í slaginn með okkur á næstunni. Að minnsta kosti fer hann með okkur út í fyrramálið,“ sagði Snorri Steinn en handknattleiksmaðurinn efnilegi Einar Þorsteinn Ólafsson fékk högg á hnéið í fyrri hálfleik í kvöld og kom ekkert við sögu eftir það.
„Það er alltént búið að útiloka að um alvarleg meiðsli sé að ræða eftir því sem ég best veit. Vegna þess að þetta var fyrsti leikur á tímabilinu þá vildi ég ekki tefla á tvær hættur og senda hann inn á völlinn aftur,“ sagði Snorri Steinn en Einar Þorsteinn sló í gegn í úrslitakeppninni í vor.
Fórum í leikinn af alvöru
„Leikurinn í kvöld eykur vissulega álagið á okkur en ég vildi frekar fá þennan leik en ekki og taka þá því sem verða vill ef álagið verður of mikið á okkur á skömmum tíma. Við fórum af alvöru í þennan leik og lékum til sigurs og mér fannst ganga vel. Mér fannst við finna fljótlega taktinn í varnarleiknum og Björgvin Páll fylgdi vel eftir í markinu. Honum óx ásmegin þegar á leikinn leið.
Ég er viss um að þessi leikur gefur okkur mikið. Það skipti miklu máli að komast af krafti af stað á nýjan leik. Framundan eru erfiðir leikir, bæði í Evrópukeppninni og síðan í bikar þegar við komum heim,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals í samtali við handbolta.is í Origohöllinni í kvöld.