- Pólska landsliðið vann landslið Alsír, 24:21, á æfingamóti í handknattleik karla í Póllandi í gærkvöld. Landslið Alsír verður andstæðingur íslenska landsliðsins á HM í Egyptalandi í næsta mánuði. Þetta var annað tap Alsír á jafnmörgum dögum á mótinu en í fyrrakvöld tapaði Norður-Afríkuliðið fyrir Rússum, 30:24. Pólska landsliðið var ekki fullskipað í leiknum í gær. Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 11:11.
- Spánverjar unnu Argentínumenn, 33:31, á æfingamóti á Spáni í gær. Spænska landsliðið var án nokkurra af sínum bestu mönnum sem eru með Barcelona-liðinu í Köln í úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Barcelona leikur einmitt til úrslita við Kiel í keppninni í kvöld.
- Daninn Henrik Toft Hansen er með kórónuveiruna og tók ekki þátt í undanúrslitaleik PSG og Barcelona í Meistaradeildinni í gærkvöld. Hann verður þar af leiðandi heldur ekki með PSG í kvöld þegar liðið mætir Veszprém í leiknum um 3. sætið í keppninni.
- Enn einn Þjóðverjinn varð í gær að draga sig út úr landsliðinu fyrir heimsmeistaramótið í handknattleik. Jannik Kohlbacher, línumaðurinn sterki hjá Rhein-Neckar Löwen, er meiddur eftir viðureign liðsins við Coburg á sunnudaginn. Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari Þýskalands, valdi í gær Moritz Preuss, línumann Magdeburg í landsliðshópinn í stað Kohlbacher. Preuss á fimm landsleiki að baki. Alls hafa átta leikmenn dregið sig út úr þýska landsliðinu af ýmsum ástæðum, þar af eru þrír línumenn.
Gærnklæddir leikmenn landsliðs Alsír, Reda Arib og Hichem Daoud eru harðir í horn að taka. Mynd/EPA