- Auglýsing -
- Pólska landsliðið vann landslið Alsír, 24:21, á æfingamóti í handknattleik karla í Póllandi í gærkvöld. Landslið Alsír verður andstæðingur íslenska landsliðsins á HM í Egyptalandi í næsta mánuði. Þetta var annað tap Alsír á jafnmörgum dögum á mótinu en í fyrrakvöld tapaði Norður-Afríkuliðið fyrir Rússum, 30:24. Pólska landsliðið var ekki fullskipað í leiknum í gær. Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 11:11.
- Spánverjar unnu Argentínumenn, 33:31, á æfingamóti á Spáni í gær. Spænska landsliðið var án nokkurra af sínum bestu mönnum sem eru með Barcelona-liðinu í Köln í úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Barcelona leikur einmitt til úrslita við Kiel í keppninni í kvöld.
- Daninn Henrik Toft Hansen er með kórónuveiruna og tók ekki þátt í undanúrslitaleik PSG og Barcelona í Meistaradeildinni í gærkvöld. Hann verður þar af leiðandi heldur ekki með PSG í kvöld þegar liðið mætir Veszprém í leiknum um 3. sætið í keppninni.
- Enn einn Þjóðverjinn varð í gær að draga sig út úr landsliðinu fyrir heimsmeistaramótið í handknattleik. Jannik Kohlbacher, línumaðurinn sterki hjá Rhein-Neckar Löwen, er meiddur eftir viðureign liðsins við Coburg á sunnudaginn. Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari Þýskalands, valdi í gær Moritz Preuss, línumann Magdeburg í landsliðshópinn í stað Kohlbacher. Preuss á fimm landsleiki að baki. Alls hafa átta leikmenn dregið sig út úr þýska landsliðinu af ýmsum ástæðum, þar af eru þrír línumenn.
- Auglýsing -