- Auglýsing -
- Eftir fjóra tapleiki röð í deildinni og bikarkeppninni ætla lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðssonar í þýska 1. deildarliðinu Gummersbach að leggja allt í sölurnar í dag þegar þeir taka á móti Füchse Berlín í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Leikurinn fer ekki fram í SCHWALBE-Arena í Gummersbach eins og flestir heimaleikir liðsins heldur í Lanxess-Arena í Köln.
- Seldir hafa verið 18 þúsund aðgöngumiðar á viðureignina í Lanxess-Arena. Füchse Berlin er í öðru sæti þýsku 1. deildarinnar en Gummersbach situr í 8. sæti átta stigum á eftir Berlínarliðinu.
- Tveir efnilegir norskir handknattleiksmenn Erlend Johnsen og Magnus Stölefjell hafa framlengt samninga sína við norska meistaraliðið Kolstad. Forráðamenn félagsins segir samningagerðina vera afar mikilvæg fyrir félagið og framtíð þess.
Kolstad leikur til úrslita í norsku bikarkeppninni í karlaflokki á sunnudaginn við Elverum. Fjórir Íslendingar verða í eldlínunni með Kolstad í leiknum, Arnór Snær og Benedikt Gunnar Óskarssynir, Sigvaldi Björn Guðjónsson og Sveinn Jóhannsson.
- Danska úrvalsdeildarliðið Fredericia HK sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar, hefur samið við efnilegan sænska handknattleiksmann, Pelle Segertoft, tvítugan að aldri. Segertoft kemur til félagsins næsta sumar frá Önnereds í Gautaborg. Hann er tveir metrar á hæð og þykir mikið efni, hvort heldur sem sóknar- eða varnarmaður. Segertoft er sagður skytta góð sem m.a. hafi gert usla meðal andstæðinga sænska landsliðsins á EM 20 ára landsliða í Slóveníu í júlí sl. Svíar hrepptu 5. sætið á mótinu.
- Auglýsing -