- Auglýsing -
- Adam Thorstensen markvörður Stjörnunnar og U20 ára landsliðsins sem tekur þátt í EM í júlí hefur framlengt samning sinn við Stjörnuna til ársins 2025. Adam kom til félagsins árið 2020 frá ÍR og var þá hálft í hvoru hættur í handknattleik. Hann hefur sótt í sig veðrið undir handarjaðri Patreks Jóhannessonar í Garðabæ.
- Harpa Rún Friðriksdóttir hefur skrifað undir nýjan samning við Fjölni/Fylki sem leikur í Grill66-deild kvenna. Harpa Rún er markvörður og gekk til liðs við Fjölni/Fylki um áramótin frá HK.
- Þegar Kristján Örn Kristjánsson, Donni, og félagar í PAUC unnu Dunkerque í frönsku 1. deildinni í fyrrakvöld þá tryggðu þeir sér um leið þriðja sæti deildarinnar. Það er besti árangur í sögu félagsins.
- Danski handknattleiksþjálfarinn Claus Mogensen sem þjálfað hefur danska kvennaliðið København Håndbold síðustu sex ár tekur við þjálfun tyrkneska meistaraliðsins Kastamonu Belediyesi GSK í sumar. Hann er annar Daninn sem þjálfar tyrkneska meistaraliðið á síðustu þremur árum en Helle Thomsen þjálfaði liðið 2020/2021. Kastamonu lék í riðlakeppni Meistaradeildar í vetur.
- Thomas Mogensen sem lengi lék með Flensburg og danska landsliðinu hefur verið ráðinn íþróttastjóri hjá SønderjyskE í Danmörku. Mogensen lagði keppnisskóna á hilluna í vor. Hann tekur við starfinu af Simon Lindhardt sem hefur sinnt því síðustu 17 ár.
- Auglýsing -