- Auglýsing -
- Norska handknattleiksstjarnan Sander Sagosen segir alltof mikið álag vera á handknattleikmönnum um þessar mundir. Það sé hreinlega heilsuspillandi. Nefnir hann sem dæmi að lið hans, Kiel, leikur sjö leiki á 14 dögum. „Með slíku álagi sem nú er á handknattleiksmönnum þá er hætta á meiðslum mjög mikil. Ástandið ógnar heilsu manna,“ sagði Sagosen við TV2 í heimalandi sínu.
- Norski landsliðsmaðurinn Harald Reinkind hefur skrifað undir nýjan samning við Evrópumeistara THW Kiel sem gildir fram á mitt ár 2024.
- Danski landsliðmaðurinn og liðsmaður GOG, Anders Zachariassen, sleit krossband í viðureign GOG og Ribe-Esbjerg á föstudagskvöld. Hann verður væntanlega frá keppni út þetta ár af þessum sökum.
- Ace Jonovski hefur verið ráðinn þjálfari karlalandsliðs Norður-Makedóníu. Hann mun starfa við hlið Kiril Lazarov sem á dögunum var ráðinn landsliðsþjálfari. Lazarov hefur hinsvegar ekki enn öðlast full réttindi sem þjálfari og verður þar af leiðandi að hafa menntaðan þjálfara sér við hlið til að uppfylla alþjóðlegar kröfur.
- Estavana Polman var í gær valin í 21 manns landsliðshóp Hollands til undirbúnings fyrir forkeppni Ólympíuleikanna sem fram fer 19.-21. mars. Polman hefur ekki leikið handknattleik síðan í ágúst er hún sleit krossband. Hún er hinsvegar byrjuð að æfa með danska meistaraliðinu Esbjerg og vonast til að getað leikið með liðinu á næstunni. Emmanuel Mayonnade, landsliðsþjálfari Hollands, hikaði þar með ekki við að velja Polman í hópinn að þessu sinni. Polman var kjölfesta hollenska landsliðsins þegar það varð heimsmeistari í Japan í desember fyrir rúmu ári.
- Auglýsing -