- Auglýsing -
- Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði fjögur mörk og gaf fjórar stoðsendingar þegar Skara HF gerði jafntefli við Önnereds í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gærkvöld, 28:28. Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði tvö mörk og gaf eina stoðsendingu en hún leikur einnig með Skara en liðið hefur leikið sjö leiki í röð án taps í deildinni. Skara HF situr í 7. sæti deildarinnar með 15 stig eftir 15 leiki, fimm sigrar, fimm jafntefli og fimm töp.
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir og samherjar hennar í EH Aalborg unnu Hadsten, 27:20, í næst efstu deild danska handknattleiksins í gær á heimavelli. Þetta var fjórtándi sigur EH Aalborg í deildinni og er liðið í efsta sæti, fimm stigum á undan Roskilde Håndbold.
- Sveinn Aron Sveinsson fékk á dögunum félagaskipti frá Aftureldingu til Þórs á Akureyri. Síðan hefur hann m.a. leikið einn leik með Þórsurum í Grill 66-deildinni. Sveinn Aron lék lengi með Val og var m.a. í Íslandsmeistaraliði félagsins 2017. Hann gekk til liðs við Selfoss fyrir nokkrum árum en kom síðar til liðs við Aftureldingu.
- Ísak Arnar Kolbeins sem hefur verið einn markvarða Gróttu hefur fengið félagaskipti til Svíþjóðar eftir því sem greint er frá félagaskiptasíðu HSÍ.
- Marko Coric, línu- og varnarmaðurinn sterki, sem lék með Fram á fyrri hluta keppnistímabilsins og tímabilið 2022/2023, en var leystur undan samningi að eigin ósk er kominn til félagsliðs í Tékklandi.
- Leó Renaud-David sem lék með Herði á síðari hluta síðasta keppnistímabils leikur nú með félagslið í Kúveit.
- Norska landsliðskonan í handknattleik Kristine Breistøl yfirgefur danska meistaraliðið Esbjerg í sumar og gengur til liðs við ungversku meistarana Györ. Hún var hjá ungverska liðinu í skamman tíma áður en hún samdi við Esbjerg fyrir sex árum.
- Auglýsing -