- Auglýsing -
- Fjórtándi sigur danska handknattleiksliðsins EH Aalborg á keppnistímabilinu var í höfn í gær þegar liðið lagði Roskilde Håndbold, 29:23, á heimavelli í næsta efstu deild kvenna eftir að hafa verið 16:12 yfir í hálfleik. Andrea Jacobsen landsliðskona skoraði tvö af mörkum EH Aalborg sem er efst í deildinni með 28 stig af 30 mögulegum.
- Steinunn Hansdóttir skoraði ekki mark fyrir Skanderborg Håndbold þegar liðið vann Ajax, 30:26, á heimavelli í úrvalsdeild kvenna í Danmörku í gær. Skanderborg er áfram í 13. sæti þátt fyrir sigurinn með fimm stig eftir 16 leiki.
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir, landsliðsmarkvörður, kom ekkert við sögu hjá Ringkøbing Håndbold í níu marka tapi á heimavelli fyrir meisturum Odense Håndbold, 36:27, í úrvalsdeild kvenna í Danmörku í gær. Ringkøbing er í 11. sæti með sjö stig.
- Gott gengi Fredrikstad Bkl. undir stjórn Elíasar Más Halldórssonar í norsku úrvalsdeild kvenna heldur áfram. Liðið vann Fana, 31:30, á útivelli í gær og er í fjórða til sjötta sæti ásamt Molde og Larvik.
- Axel Stefánsson og liðsmenn hans í Storhamar gerðu jafntefli við Larvik á heimavelli í gær, 25:25. Storhamar er áfram í öðru sæti deildarinnar, næst á eftir Evrópumeisturum Vipers sem bera ægishjálm yfir önnur lið norsku úrvalsdeildarinnar í kvennaflokki eins og undanfarin ár.
- Vipers vann stórsigur á Íslendingaliðinu Volda í gær, 38:22, þegar leikið var í Kristiansand. Dana Björg Guðmundsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Volda en Katrín Tinna Jensdóttir og Rakel Sara Elvarsdóttir skoruðu eitt mark hvor. Volda rekur lestina í deildinni. Þjálfari liðsins er Halldór Stefán Haraldsson.
- Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu þegar IFK Skövde tapaði á heimavelli fyrir Guif frá Eskilstuna í sænsku úrvalsdeildinni í gær. IFK Skövde situr í sjöunda sæti með 16 stig að loknum 19 leikjum, er 16 stigum á eftir Kristianstad sem er efst.
- Alpla Hard, liðið sem Hannes Jón Jónsson þjálfar, komst í átta liða úrslit austurrísku bikarkeppninnar í gær með því að leggja Voslauer, 30:26, á heimavelli.
- Harpa Rut Jónsdóttir skoraði eitt mark þegar GC Amicita Zürich tapaði á heimavelli í gær fyrir DHB Rotweiss Thun, 32:29. Sunna Guðrún Pétursdóttir varði ekki skot í marki GC Amicita Zürich þann stutta tíma sem hún fékk til þess að spreyta sig í marki liðsins í leiknum. GC Amicita Zürich er í fimmta sæti deildarinnar en á brattann hefur verið að sækja hjá liðinu upp á síðkastið.
- Motor Zaporozhye hóf árið í þýsku 2. deildinni í gærkvöld með því að leggja Dormagen, 28:22, á útivelli. Roland Eradze er aðstoðarþjálfari Motor-liðsins sem er í hlutverki gestaliðs í deildinni í vetur vegna stríðsins sem geysar í Úkraínu vegna innrásar Rússa í landið fyrir 11 mánuðum. HC Motor er í 17. sæti af 20 liðum 2. deildar. Gintaras Savukynas er þjálfari HC Motor.
- Auglýsing -