- Andri Már Rúnarsson var valinn maður leiksins í sigurleik íslenska landsliðsins á Serbum í lokaumferð riðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik karla, skipað leikmönnum 21 árs og yngri, í Aþenu í gær. Andri Már og félagar unnu leikinn, 32:29, og fara með tvö stig áfram í milliriðlakeppnina sem hefst á morgun, sunnudag.
- Japaninn Naoki Fujisaka er markahæstur á heimsmeistaramótinu 21 árs landsliða í handknattleik þegar þremur umferðum er lokið. Hann hefur skorað 26 mörk eins og Færeyingurinn Elias Ellefsen á Skipagøtu. Annar Færeyingur, Hákun West av Teigum, er í þriðja sæti með 24 mörk. Omar Mohamed, Egyptalandi og Mohamed Rabia, Barein, eru skammt á eftir með 23 mörk hvor. Bareinar skoruðu hvorki fleiri né færri en 63 mörk í sigurleik á Grænlendingum í gær, 63:13, og tryggðu sér sæti á meðal 16 efstu á kostnaði Slóvena sem sátu eftir með sárt ennið.
- Markaskorun hefur dreifst mjög á milli leikmanna íslenska landsliðsins á HM. Símon Michael Guðjónsson hefur skorað fimmtán sinnum, fimm mörk að jafnaði í leik.
- Viktor Szilagyi, framkvæmdastjóri þýska meistaraliðsins THW Kiel, ítrekaði þá skoðun sína að rétt sé að fækka liðum í efstu deild þýska handknattleiksins um tvö, úr 18 í 16. Við það fækkaði leikjum á hvert lið í deildarkeppninni um 34 í 30. Um leið minnkaði aðeins mikið álag sem er á leikmönnum deildarinnar.
- Eftir að hafa leikið með Lemgo í 11 ár hefur Spánverjinn Isaias Guardiola ákveðið að snúa heim í sumar. Örvhenta skyttan hefur samið við BM Nava sem leikur í efstu deild spænska handknattleiksins.
- Annar örvhentur handknattleiksmaður, Julian Fuchs, hefur ákveðið að söðla um. Hann kveður Íslendingaliðið MT Melsungen og verður liðsmaður Wetzlar.
- Auglýsing -