- Auglýsing -
- Handknattleikskonan Anna Úrsúla Guðmundsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri á skrifstofu íþróttafélagsins Gróttu. Anna Úrsúla er Gróttufólki að góðu kunn enda uppalin innan raða félagsins sem iðkandi hjá handknattleiksdeild, segir í tilkynningu. Hún var fyrirliði meistaraflokks þegar liðið varð Íslands-, bikar- og deildarmeistari í handknattleik árið 2015 og fylgdi því eftir með Íslandsmeistaratitli ári seinna. Anna er stjórnmálafræðingur að mennt og vann síðast hjá Eimskip.
- Handknattleiksliðið Hvíti riddarinn, sem leikur í 2. deild á leiktíðinni, hefur sópað til sín liðsauka á síðustu dögum eins og m.a. hefur komið fram á handbolti.is. Einn þeirra er Örn Ingi Bjarkason sem fékk félagaskipti úr Víkingi á dögunum. Það verður spennandi að sjá Örn Inga á vellinum á nýjan leik en hann varð alltof snemma að draga saman seglin vegna þrálátra hnémeiðsla.
- Sandra Erlingsdóttir, TuS Metzingen, og Díana Dögg Magnúsdóttir, BSV Sachsen Zwickau, landsliðskonur í handknattleik eru á meðal 25 markahæstu leikmanna þýsku 1. deildarinnar þegar þremur umferðum er lokið. Díana Dögg er í 17. sæti með 14 mörk. Sandra er einu marki á eftir. Annika Lott leikmaður Thüringer HC er markahæst með 25 mörk, er sex mörkum á undan þeirri næstu.
- Svartfellska handknattleikskonan og leikmaður Buducnost, Milena Raicevic, gaf 16 stoðsendingar í viðureign Buducnost og Sävehof í Meistaradeildinni á sunnudaginn. Tölfræðingar á vegum handknattleikssambands Evrópu klóra sér nú í kollinum og leita að sambærilegum árangri í handboltaleik. Talið er um heimsmet, a.m.k. Evrópumet kunni að vera um að ræða.
- Þrettánda árið í röð skilaði umsvifamesta handknattleiksfélag Danmerkur, Aalborg Håndbold, hagnaði á síðasta keppnistímabili. Afgangurinn nam 1,7 milljónum danskra króna fyrir skatt, jafnvirði um 34 milljóna íslenskra króna.
- Auglýsing -