- Auglýsing -
- Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæma viðureign ungversku liðanna Pick Szeged og Telekom Veszprém í fyrstu umferð Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla. Leikurinn fer fram í Szeged á morgun og er fyrri leikur liðanna. Þau mætast aftur á heimavelli Veszprém í næstu viku. Þetta verður sjötti leikurinn sem þeir félagar dæma í Meistaradeildinni á leiktíðinni.
- Tyrkirnir Ibrahim Özdeniz og Kursad Erdogan dæma leik Vals og Göppingen í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik karla í Origohöllinni í kvöld. Zigmars Sondors, Lettlandi, verður eftirlitsmaður á leiknum.
- Gísli Þorgeir Kristjánsson er í liði 23. umferðar þýsku 1. deildarinnar í handknattleik sem valið var í gær eftir leiki undangenginnar helgar. Gísli Þorgeir átti enn einn stórleikinn með Magdeburg á tímabilinu þegar liðið vann Hamm á sunnudaginn, 36:27.
- Oddur Gretarsson er í liði 25. umferðar 2. deildar þýska handknattleiksins. Þetta er í fimmta sinn á tímabilinu sem Oddur er í liði umferðarinnar. Hann skoraði 12 mörk í 13 skotum í sigri Balingen-Weilstetten á Dormagen á útivelli á föstudaginn, 29:24. Balingen er efst í deildinni og stefnir hraðbyri á ný upp í efstu deild þaðan sem liðið féll fyrir ári.
- Oddur er þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar með 155 mörk. Úkraínumaðurinn Ihor Turchenko er markahæstur með 164 mörk.
- Jónína Hlíf Hansdóttir fyrrverandi leikmaður Fram lék með liði sínu MKS Iuventa Michalovce frá Slóvakíu á sunnudaginn í fyrri undanúrslitaleiknum við Antalya Konyaalti BSK í Evrópubikarkeppninni í handknattleik. Jónína Hlíf og samherjar töpuðu með sjö marka mun, 31:24. Leikið var í Tyrklandi. Síðari viðureignin verður í Michalovce í Slóvakíu á sunnudaginn. Jónína skoraði ekki í leiknum á sunnudaginn.
- Í hinni viðureign undanúrslita eigast við spænsku liðin Atlético Guardes og BM Elche sem sló út Val í keppninni fyrir áramót. Elche tapaði fyrri leiknum á heimavelli á sunnudaginn, 23:22.
- Auglýsing -