- Auglýsing -
- Tilkynnt var í gær að Svíinn Michael Apelgren taki við þjálfun ungversku meistaranna Pick Szeged sumarið 2024. Miklar vangaveltur hafa verið um framtíð Apelgren síðustu vikur. M.a. var hann orðaður við starf landsliðsþjálfara Íslands. Apelgren mun ljúka samningi sínum við IK Sävehof að ári liðnu. Hann hefur þjálfað liðið afar góðum árangri frá 2020. Þar áður var Svíinn við stjórnvölin hjá Elverum í Noregi með afbragðsárangri.
- Jonas Källman verður aðstoðarmaður Apelgren hjá Pick Szeged. Källman er goðsögn hjá félaginu eftir að hafa leikið með liði félagsins í sjö ár, frá 2014 til 2021, lengst af sem fyrirliði. Juan Carlos Pastor lætur af störfum hjá Pick Szeged í sumar eftir 10 ár. Í tilkynningu félagsins í gær kemur fram að Krisztián Kárpáti hlaupi í skarðið næsta árið þangað til Apelgren og Källman mæta til leiks. Kárpáti er yfirmaður akademíu Pick Szeged og fyrrverandi markvörður.
- Svíinn Ola Lindgren hefur skrifað undir nýjan samning um þjálfun finnska karlalandsliðsins til ársins 2025. Finnar eru stórhuga og stefna ótrauðir á sæti í lokakeppni EM 2026. Lindgren tók við þjálfun finnska landsliðsins fyrir fjórum árum.
- Sænski landsliðsmaðurinn Eric Johansson leikur ekki meira með THW Kiel á leiktíðinni. Hann er handleggsbrotinn, segir í tilkynningu félagsins í gær.
- Evrópumeistarar Barcelona unnu Ciudad de Logroño, 34:24, í úrslitaleik spænsku bikarkeppninnar á sunnudaginn. Þetta var 49. meistaratitill Barcelona í röð í spænskum karlahandknattleik.
- Turið Arge Samuelsen fyrrverandi leikmaður Hauka fór á kostum með Kyndli undir stjórn Jakobs Lárussonar á nýliðinni leiktíð í færeysku úrvalsdeildinni í handknattleik. Hún skoraði 279 mörk, eða 10,7 mörk að jafnaði í leik. Þetta er markamet í færeysku úrvalsdeildinni. Næsti leikmaður á eftir Samuelsen skoraði 200 mörk.
- Auglýsing -