- Auglýsing -
- Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði fimm mörk þegar lið hans vann Önnereds á heimavelli í fyrstu umferð riðlakeppni sænsku bikarkeppninnar í gær, 40:35. Auk Amo og Önnereds eiga Anderstorps og Lagan sæti í 6. riðli bikarkeppninnar. Leikið verður heima og að heiman og fara tvö lið áfram á næsta stig keppninnar en tvö heltast úr lestinni.
- Tilkynnt var í gær að Arnar Birkir hafi hlotið háttvísisverðlaun sænska dómarasambandsins fyrir síðasta keppnistímabil, Guldpipan.
- Bjarki Finnbogason, fyrrverandi leikmaður HK, sem lék með sænska B-deildarliðinu Anderstorps SK 72 á síðasta keppnistímabili verður ekki áfram í herbúðum félagsins. Eftir því sem næst verður komist er Bjarki fluttur til Malmö.
- Andri Már Rúnarsson og Viggó Kristjánsson skoruðu sex mörk hvor fyrir Leipzig þegar liðið vann HC Erlangen, 34:31, í æfingaleik á fimmtudaginn. Leipzig, sem Rúnar Sigtryggsson þjálfar, leikur vináttuleik við Wisla Plock í dag. Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson er gekk til liðs við pólsku meistarana í sumar.
- Þrátt fyrir 39 marka sigur, 45:6, á Godøy í fyrstu umferð norsku bikarkeppninnar í handknattleik á þriðjudagskvöldið eru Dana Björg Guðmundsdóttir og samherjar í Volda úr leik í keppninni. Liðinu varð það á að tefla fram ólöglegum í leikmanni. Um er að ræða leikmann sem kom til félagsins í sumar en af einhverjum ástæðum var ekki kominn með leikheimild. Godøy tekur sæti í 2. umferð bikarkeppninnar. Dana Björg skoraði þriðjung marka Volda í leiknum eins og handbolti.is sagði frá.
- Handknattleikslið Harðar á Ísafirði er komið til Dobele í Lettlandi þar sem það verður við æfingar og keppni næstu daga. M.a. tekur liðið þátt í æfingamótinu, Dobele Cup, sem hefst í dag með viðureign Harðar og RK Dragunas.
- Auglýsing -