- Auglýsing -
- Landsliðsmaðurinn í handknattleik, Arnar Freyr Arnarsson, leikur áfram með þýska 1. deildarliðinu Melsungen á næsta keppnistímabili. Samningur hans tekur einnig yfir næsta keppnistímabil. Arnar Freyr staðfesti það við handbolta.is í gærmorgun. Hann kom til Melsungen sumarið 2020.
- Berglind Gunnarsdóttir hefur skrifað undir tveggja ára samning við Val. Berglind er fædd árið 2005 og hefur leikið fyrir 3. flokk félagsins. Hún er á meðal varamanni í undirbúningshópi U18 ára landsliðsins sem tekur þátt í heimsmeistaramótinu í Norður Makedóníu síðar í sumar.
- Slóvenska stórskyttan Ana Gros hefur samið við ungverska meistaraliðið Györ. Gros hóf tímabilið hjá CSKA Moskvu en þegar Rússar réðust inn í Úkraínu í lok febrúar óskaði Gros eftir að vera leyst undan samningi. Í framhaldinu gekk hún til liðs við Krim Ljubljana og lék með liðinu út leiktíðina. Gros hefur áður verið hjá Györ, frá 2010 til 2012.
- Norska landsliðskonan Henny Reistad var kjörin besti handknattleiksmaður Noregs 2021/2022 en síðan topphandball.no ásamt fleirum stóð fyrir valinu. Þetta er annað árið í röð sem Reistad verður fyrir valinu.
- Króatarnir Matija Gubica og Boris Milosevic dæma úrslitaleik Meistaradeildar karla í handknattleik í Lanxess Arena í Köln 19. júní. Þetta verður í annað sinn á síðustu þremur árum sem þeir félagar dæma úrslitaleik keppninnar.
- Frönsku bræðurnir Karim og Raouf Gasmi dæma bronsleik Meistaradeildar karla að þessu sinni. Þeir dæmdu síðari landsleik Íslands og Austurríkis í umspili fyrir HM hér á landi laugardaginn 16. apríl sl.
- Mads Hansen og Jesper Madsen frá Danmörku dæma undanúrslitaleik Kielce og Veszprém og Serbarnir Nenad Nikolic og Dusan Stojkovic hina viðureign undanúrslitanna á milli Barcelona og Kiel.
- Auglýsing -