- Auglýsing -
- Arnór Atlason fagnaði sigri á heimavelli með liði sínu TTH Holstebro á liðsmönnum Kolding í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik karla í gær, 38:29, eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik, 18:13. Holstebro færðist upp í 10. sæti af 14 liðum deildarinnar með fimm stig að loknum sex leikjum. Arnór tók við sem þjálfari Holstebro í sumar.
- Kadetten Schaffhausen vann sinn fimmta leik í svissnesku A-deildinni í handknattleik. Kadetten lagði Pfadi Winterthur, 29:27, á heimavelli. Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði sjö mörk, þar af þrjú úr vítaköstum og var næst markahæsti leikmaður liðsins. Kadetten er efst í deildinni með 11 stig að loknum sex umferðum og er eina liðið sem ekki hefur tapað leik.
- Axel Stefánsson var í sigurskapi í gærkvöldi eftir að Storhamar vann Fana með 11 marka mun í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik kvenna í gær. Axel er annar þjálfara Storhamar. Liðið hefur unnið fyrstu fimm leiki sína í deildinni eins og Evrópu- og Noregsmeistarar Vipers Kristiansand.
- Stiven Tobar Valencia var fjarverandi þegar Benfica vann Avanca, 38:23, á heimavelli í portúgölsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Stiven Tobar er meiddur í nára og hefur af þeim sökum misst af síðustu þremur leikjum liðsins.
- H.C. Dunarea Braila, sem Valur mætir öðru sinni í undankeppni Evrópudeildar kvenna í handknattleik í Rúmeníu á laugardaginn, vann Rapid Búkarest, 28:27, í rúmensku úrvalsdeildinni í kvennaflokki í gærkvöld. Leikið var í Braila. Rapid Búkarest hefur mjög sótt í sig veðrið síðustu ár og á m.a. annað árið í röð sæti í Meistaradeild Evrópu.
- Slóvenski miðjumaðurinn Stas Skube leikur væntanlega ekki aftur með Montpellier fyrr en í febrúar. Skube meiddist í leik Montpellier og Veszprém í Meistaradeildinni í síðustu viku.
- Hollensku landsliðskonurnar Dione Housheer og Bo van Wetering kveðja danska úrvalsdeildarliðið Odense Håndbold næsta sumar og ganga til liðs við ungverska meistaraliðið Györ.
- Danski markvörðurinn, Sarah Nørklit Lønborg, hefur óvænt gengið til liðs við þýska meistaraliðið Bietigheim frá danska úrvalsdeildarliðinu Ajax København.
- Auglýsing -