- Auglýsing -
- Birta Rún Grétarsdóttir skoraði eitt mark í sigri á Fjellhammer á Pors í 1. umferð næst efstu deildar norska handknattleiksins í gær, 33:21. Birta Rún, sem lék með HK hér á landi, er að hefja sitt annað keppnistímabil með Fjellhammer. Hún hefur búið í Noregi árum saman. Fyrstu árin eftir að til Noregs var komið lék Birta Rún með Oppsal.
- Harpa María Friðgeirsdóttir skoraði fjögur mörk fyrir TMS Ringsted í fyrsta leik sínum fyrir félagið í gær þegar TMS Ringsted tapað fyrir SønderjyskE, 40:24, í 16-liða úrslitum dönsku bikarkeppninnar. Harpa María skoraði tvö marka sinna úr vítaköstum. TMS Ringsted leikur í næst efstu deild en SønderjyskE er úrvalsdeildarlið og skýrir það mikinn mun á liðunum þegar litið er til úrslita leiksins.
- Tryggvi Þórisson skoraði tvö mörk í gær þegar IK Sävehof vann Västeråslrsta, 39:30, í þriðju og síðustu umferð 1. riðils fyrsta stigs sænsku bikarkeppninnar. IK Sävehof vann allar viðureignir sínar í riðlinum nokkuð örugglega. Västeråslrsta fer áfram með IK Sävehof en Varberg og Lindesberg eru úr leik.
- Dregið verður í 16-liða úrslit í bikarkeppninnar í Svíþjóð í hádeginu í dag. Lið sem Íslendingar leika með verða í pottinum jafnt í karla- og kvennaflokki.
- Tjörvi Týr Gíslason skoraði tvö mörk fyrir Bergischer HC í 14 marka sigri á TSV Bayer Dormagen í æfingaleik um helgina en þetta var síðasti æfingaleikur Bergischer áður en keppnistímabilið hefst í þýsku 2. deildinni á föstudaginn. Arnór Þór Gunnarsson er annar þjálfara Bergischer. Liðið mætir Tusem Essen í fyrstu umferð 2. deildar á heimavelli á laugardaginn.
- Daníel Þór Ingason og samherjar í Balingen-Weilstetten eiga upphafsleik 2. deildar að þessu sinni. Þeir mæta TuS N-Lübbecke á heimavelli klukkan 17 á föstudag. Balingen-Weilstetten og Bergischer HC féllu úr efstu deild karla í vor.
- Auglýsing -