- Auglýsing -
- Þýski markvörðurinn Johannes Bitter var með bestu hlutfallsmarkvörslu markvarða í handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikunum í Tókýó sem lauk um nýliðna helgi. Bitter varði þriðja hvert skot sem barst á markið hans, alls 32 af 96. Daninn Niklas Landin varð annar með 32,1% og Egyptinn Karim Handawy í þriðja sæti með 31,7%. Thorbjörn Bergerund er í fjórða sæti með 31,5%. Gustav Capdeville, Portúgal, hafnaði í fimmta sæti með 31,4%.
- Frakkinn Vincent Gerard varði níu af þeim 24 vítaköstum sem hann reyndi að verja á leikunum, 38%. Portúgalinn Capdeville varð annar með 31% og Juan Manuel Bar, Argentínu, varði 30% vítakasta sem hann freistaði verja.
- Katrine Lunde, annar markvörður norska landsliðsins, varði best allra í handknattleikskeppni kvenna á Ólympíuleikunum. Hún stöðvaði 45 af 120 skotum sem á mark norska landsliðsins kom þegar hún stóð vaktinu, 37,5%. Japaninn Minami Itano varð önnur með 36,7% og Silje Solberg, samherji Lunde, varði 35,5% skota sem á markið bárust. Japaninn Sakura Kametani varð fjórða með 33,7% hlutfall og Frakkinn Cléopatre Darleux fimmta með 32,8%.
- Ekki er á boðstólum á vef Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, upplýsingar um hvaða markverðir í kvennaflokki vörðu hlutfallslega flest vítaköst.
- Rússneska handknattleikskonan Polina Kuznetsova hefur ákveðið að láta staðar numið með rússneska landsliðinu og einbeita sér að því að leika með meistaraliðinu Rostov Don það sem er eftir ferilsins. Kuznetsova er 34 ára gömul og er eldri systir Anna Vyakhirevu sem valin var besti leikmaður í kvennaflokki í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna. Kuznetsova, sem leikur í vinstra horni, tók þátt í sínum fyrsta landsleik fyrir 16 árum.
- Hin þrautreynda danska handknattleikskona, Ann Grete Nørgaard, er á leið aftur í dönsku úrvalsdeildina í handknattleik. Nørgaard, sem er 38 ára gömul og á 139 landsleiki að baki, mun vera á leið til Silkeborg-Voel. Hyggst hún hlaupa í skarðið fyrir Hege Bakken Wahlquist sem ætlar heim til Noregs. Nørgaard lék á síðasta tímabili með Ramnicu Valcea í Rúmeníu.
- Auglýsing -