- Auglýsing -
- Bjarki Már Elísson, markakóngur þýsku 1. deildarinnar á síðasta keppnistímabili, skoraði 11 mörk, þar af fjögur úr vítaköstum, þegar lið hans Lemgo vann Nettelsted í æfingaleik í fyrradag, 31:18. Bjarki og félagar taka á móti nýliðum Coburg í fyrstu umferð þýsku deildarinnar á miðvikudagskvöld.

- Hildigunnur Einarsdóttir skoraði eitt mark þegar lið hennar Leverkusen tapaði, 23:20, fyrir HSG Bensheim/Auerbach í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gær en leikið var í Bensheim. Þetta var einugis annar leikur Leverkusen í deildinni á keppnistímabilinu sem hófst í 5. september.

- Aron Pálmarsson skoraði fjögur mörk þegar Barcelona vann Quabit Guadalajara, 35:21, í spænsku 1.deildinni í handknattleik í gær. Barcelona er með fullt hús stiga eftir fjóra leiki í deildinni og kemur sú staðreynd vart á óvart.

- Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í Kadetten Schaffhausen töpuðu fyrir HC Kriens, 32:24, á útivelli í toppslag svissnesku 1.deildarinnar í handknattleik í gær. HC Kriens komst þar með í efsta sæti deildarinnar, hefur níu stig að loknum fimm leikjum. Kadetten er einu stigi á eftir.
- Kiel vann Flensburg í gær í meistarakeppninni í þýska karlahandboltanum, 28:24, en liðin mættust í Düsseldorfer ISS Dome að viðstöddum rúmlega 2.000 áhorfendum. Dario Quenstedt, sem nú hleypur í skarðið fyrir Niklas Landin sem aðalmarkvörður Kiel, var valinn maður leiksins. Meðal áhorfenda á leiknum í Düsseldorf var Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari Þýskalands.
- Auglýsing -