- Auglýsing -
Bjarni Ófeigur Valdimarsson og samherjar í IFK Skvöde standa vel að vígi eftir annan sigur á Hammarby í átta liða úrslitakeppni sænsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gærkvöld. Leikið var í Stokkhólmi. Lokatölur voru, 30:24, fyrir Skövde sem hefur tvo vinninga og skortir aðeins einn til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum. Bjarni Ófeigur skoraði fjögur mörk í gærkvöld. Þriðja viðureignin fer fram í Skövde eftir viku.
- Grétar Ari Guðjónsson og félagar í Nice gerðu jafntefli við Billére, 30:30, á heimavelli í gærkvöld í 24. umferð frönsku 2. deildarinnar. Grétar Ari stóð allan leikinn í marki Nice og varði átta skot, þar af tvö vítaköst. Nice situr í fjórða sæti deildarinnar þegar sex umferðir eru eftir.
- Kolding, liðið sem Ágúst Elí Björgvinsson leikur með, er komið í erfiða stöðu í næst neðsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar. Kolding tapaði á útivelli í gærkvöldi, 35:31, fyrir Bjerringbro/Silkeborg á útivelli. Ágúst Elí stóð í marki Kolding hluta leiksins og varði tvö skot. Kolding mætir Holstebro á heimavelli í lokaumferðinni eftir viku. Óvíst er hvort sigur nægi Kolding til að halda sæti í deildinni.
- Martin Boqust er hættur sem aðstoðarlandsliðsþjálfari sænska karlalandsliðsins í handknattleik eftir sex ára starf. Stjórnendur sænska handknattleikssambandsins ákváðu að höfðu samráði við Glenn Solberg landsliðsþjálfara að endurnýja ekki samninginn við Boqust.
- Dejan Bombac gengur til liðs við Benfica í Portúgal í sumar. Hann leikur nú með ungverska meistaraliðinu Pick Szeged.
- Sænski línumaðurinn Andreas Nilsson flytur einnig til Portúgals í sumar. Nilsson hefur samið við Porto eftir að hafa leikið um langt árabil með Veszprém í Ungverjalandi.
- Auglýsing -