- Auglýsing -
- Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði sjö mörk í 15 skotum þegar lið hans Skövde tapaði á útivelli fyrir Svíþjóðarmeisturum Sävehof í gærkvöld, 30:28, í jöfnum og skemmtilegum leik. Bjarni Ófeigur varð næst markahæstur í sínu liði. Skövde er í fjórða sæti deildarinnar eftir 23 umferðir með 32 stig. Sävehof er efst með og með sjö stigum meira.
- Lilja Ágústsdóttir var í sigurliði Lugi sem lagði Kristianstad á útivelli, 28:27, í hörkuleik í sænsku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Andrea Jacobsen, landsliðskona lék vel fyrir Kristianstad og var m.a. markahæst með sjö mörk. Lugi er í góðum málum í þriðja sæti deildarinnar eftir sigurinn nauma. Kristianstad situr áfram í 10. sæti af 12 liðum deildarinnar.
- Axel Stefánsson þjálfari Storhamar fagnaði sigri með liði sínu í gærkvöld í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik kvenna. Storhamar vann Flint Tønsberg með 11 marka mun á heimavelli, 30:19, og er áfram í öðru sæti deildarinnar fimm stigum á eftir Noregs- og Evrópumeisturum Vipers Kristiansand. Storhamar á leik til góða á Vipers.
- Ekkert lát er á sigurgöngu Kadetten Schaffhausen undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar. Kadetten vann í gærkvöld CS Chênois Genève Handball, 35:27, á heimavelli í svissnesku A-deildinni aðeins tveimur sólarhringum eftir að liðið vann sér sæti í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Kadetten er lang efst í deildinni og taplaust eftir 23 leiki, 21 leikur hefur unnist en tveimur lokið með jafntefli.
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir, landsliðsmarkvörður, og félagar hennar í Ringkøbing Håndbold töpuðu í gærkvöld fyrir Aarhus United, 29:23, á heimavelli í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Elín Jóna stóð hluta leiksins í marki Ringkøbingliðsins en náði ekki að sýna sínar allra bestu hliðar. Hún varði 4 skot, 29%. Ringkøbing Håndbold er í næst neðsta sæti deildarinnar með 12 stig eftir 23 leiki. Þrjár umferðir eru eftir af deildarkeppninni áður en að úrslitakeppni kemur.
- Arnór Þór Gunnarsson var ekki í lið Bergischer HC í gærkvöldi í sigurleik á heimavelli á liðsmönnum Hannover-Burgdorf, 25:23. Bergischer HC situr í 10. sæti af 18 liðum þýsku 1. deildarinnar. Hannover-Burgdorf er í 14. sæti. Heiðmar Felixsson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.
- HC Erlangen, sem hefur Ólaf Stefánsson í þjálfarateymi sínu, tapaði fyrir HSV Hamburg, 30:29, í Hamborg í gær. Erlangen er í 13. sæti deildarinnar en Hamborgarliðið er í 11. sæti. Liðin eru í þýsku 1. deildinni í handknattleik.
- Auglýsing -