- Auglýsing -
- Bjarni Ófeigur Valdimarsson lék ekki með IFK Skövde á útivelli gegn Malmö í gærkvöld vegna lítilsháttar tognunar í nára. Skövde tapaði leiknum, 36:30.
- Örn Ingi Bjarkason hefur alveg gefið upp á bátinn að leika með Víkingi í Olísdeildinni í handknattleik í vetur. Örn Ingi sagði við handbolta.is í Víkinni í gær að handboltaskórnir væru endanlega komnir upp í hillu. Rykið verður ekki dustað af þeim í framtíðinni. Örn hefur lengi glímt við þrátlát meiðsli í hnjám sem styttu verulega ferilinn hjá honum. Nú er svo komið að ekki verður lengra haldið á handknattleiksvellinum sem leikmaður. Örn Ingi er aðeins 31 árs.
- Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í Kadetten unnu Zürich á heimavelli í gærkvöld 32:23. Kadetten hefur unnið þrjá fyrstu leiki sína í efstu deildinni í Sviss.
- Ekkert varð úr þátttöku afganska landsliðsins í handknattleik kvenna á Asíumeistaramótinu sem hófst 15. september í Amman í Jórdaníu. Landsliðið var skráð til leiks áður en talibanar tóku völdin í Afganistan. Eftir valdaskipti urðu verulegar breytingar á stöðu kvenna í Afganistan m.a. með þessum afleiðingum en handknattleikur átti vaxandi fylgi að fagna meðal kvenna í landinu á síðustu árum.
- Landslið Katar dró sig einnig úr leik á Asíumeistaramótinu á elleftu stundu og var kórónuveirunni borið við. Landslið frá 11 þjóðum sendi landslið til leiks og hafa landslið Suður-Kóreu og Kasakstan farið vel af stað og unnið tvo fyrstu leiki sína. Sæti á HM á Spáni í desember er í boði á mótinu sem átti að fara fram í Seúl snemma árs en var frestað fram á haust vegna veirunnar.
- Rússneski landsliðsmaðurinn Gleb Kalarash varð í gær samherji Daníels Þórs Ingasonar og Odds Gretarssonar hjá þýska liðinu Balingen-Weilstetten. Kalarash, sem m.a. var í landsliðshópi Rússa á EM 2016 og 2020, hefur verið á mála hjá Vardar Skopje. Kalarash, sem er 205 sentímetrar á hæð þekkir aðeins til í þýska handknattleiknum eftir að hafa leikið um skeið með SC Magdeburg.
- Auglýsing -