- Auglýsing -
- Bjarni Ófeigur Valdimarsson var markahæstur hjá sænska liðinu IFK Skövde þegar liðið vann norska úrvalsdeildarliðið Halden, 37:31, í æfingaleik í gær. Bjarni Ófeigur skoraði sjö mörk í leiknum.
- Þýskalandsmeistarar í handknattleik karla, SC Magdeburg, vann úkraínska liðið HC Motor, 39:24, í æfingaleik í gær að viðstöddum 600 áhorfendum. Eins og handbolti.is hefur sagt frá þá verður HC Motor gestalið í þýsku 2. deildinni á næsta keppnistímabili. Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon skoruðu ekki mark í leiknum í gær.
- Norður Makedóníumaðurinn Kostadin Petrov sem samdi við Þór Akureyri fyrir nokkrum vikum er mættur til æfinga með liðinu á Akureyri. Hann kom til landsins rétt fyrir helgina, eftir því sem fram kemur á Facebooksíðu Þórs.
- Daninn Jan Pytlick hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Sádi-Arabíu í handknattleik karla. Tekur hann við starfinu af Didier Dinart sem sagði starfi sínu lausu eftir Asíumótið í lok janúar að lokinni stuttum þjálfaraferli í konungsríkinu. Pytlick er þrautreyndur og var m.a. um nokkurra ára skeið þjálfari danska kvennalandsliðsins. Síðast þjálfaði Pytlick karlalið SønderjyskE en var látinn taka pokann sinn í nóvember eftir slæma byrjun liðsins í dönsku úrvalsdeildinni.
- Eftir því sem TV2 í Danmörku segir frá er Pytlick þessa dagana með sitt nýja lið í æfingabúðum í Tyrklandi til undirbúnings fyrir Samstöðuleika íslamsríkja sem standa fyrir dyrum. Ákvörðun Pytlick að taka starfinu í Sádi-Arabíu hefur fallið í grýttan jarðveg í Danmörku. Þegar Pytlick hætti hjá SønderjyskE sagðist hann ætla alfarið að hætta þjálfun. Hann hefur greinilega skipt um skoðun.
- Auglýsing -