- Auglýsing -
- Breki Hrafn Árnason markvörður U18 ára landsliðsins í handknattleik er í þriðja sæti á lista yfir þá markverðir sem hafa varið hlutfallslega flest skot á Evrópumótinu sem stendur yfir í Podgorica í Svartfjallalandi. Breki Hrafn hefur varið 36 skot til þessa í tveimur leikjum, 35,7%.
- Breki Hrafn kom ekkert við sögu í fyrsta leik Íslands á EM, gegn Póllandi, en stóð í markinu í tveimur þeim næstu, gegn Ungverjum og Þjóðverjum. Breki Hrafn verður í eldlínunnni með íslenska landsliðinu á EM í dag þegar liðið mætir liði heimamanna kl. 14.
- Frá því er sagt í morgun að danski landsliðsmaðurinn Henrik Toft Hansen flytji heim til Danmerkur á næsta sumri og gangi til liðs við úrvalsdeildarliðið Mors–Thy. Hansen hefur lengi leikið utan heimalandsins, síðustu fjögur ár með Paris Saint Germain.
- Hollenska landsliðskonan Delaila Amega hefur ákveðið að leggja handknattleiksskóna á hilluna, aðeins 24 ára gömul. Amega, sem var í hollenska landsliðinu sem varð heimsmeistari 2019, hefur fengið nóg eftir að hafa slitið krossband í þrígang á rúmlega tveimur árum. Hún lék síðast með Dortmund í Þýskalandi en var áður með Metzingen.
- Auglýsing -