- Auglýsing -
- Dana Björg Guðmundsdóttir og félagar í Volda eru áfram á sigurbraut í næst efstu deild norska handknattleiksins. Volda vann Levanger á heimavelli í gær, 26:25. Dana Björg skoraði fjögur mörk. Volda hefur 31 stig í 17 leikjum, fjórum stigum fleira en Fjellhammer og hefur auk þess leikið einum leik meira.
- Stöðuna í næst efstu deild norska handknattleiksins og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Þýska liðið Blomberg-Lippe vann pólska liðið KGHM MKS Zaglebie Lubin, 27:26, á heimavelli í gær í þriðju umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik. Þetta er þriðji sigur Blomberg-Lippe í riðlakeppninni og stendur vel að vígi þegar þrjár umferðir eru eftir. Hvorki Andrea Jacobsen né Díana Dögg Magnúsdóttir léku með en báðar eru frá keppni vegna meiðsla.
- Norska liðið Fredrikstad Bkl, sem Elías Már Halldórsson þjálfar, tapaði í gær fyrir spænska meistaraliðinu Super Amara Bera Bera, 32:26, í þriðju umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik kvenna. Fredrikstad Bkl hefur unnið einn leik af þremur í riðlakeppninni og á þrjár viðureignir eftir.
- Vilborg Pétursdóttir skoraði fjögur mörk fyrir AIK þegar liðið vann Örebro, 27:25, í næst efstu deild sænska handknattleiksins í gær. AIK situr í sjötta sæti deildarinnar af 12 liðum með 17 stig í 15 leikjum.
- Auglýsing -