- Auglýsing -
- Daníel Þór Ingason er í liði sjöttu umferðar þýsku 2. deildarinnar í handknattleik. Kemur valið ekki á óvart vegna þess að Daníel Þór lék afar vel með Balingen í þriggja marka sigri liðsins á Dormagen á laugardaginn, 27:24. M.a. skoraði Daníel Þór átta mörk í níu skotum og gekk einnig vasklega fram við varnarleikinn.
- Mattý Rós Birgisdóttir hefur verið lánuð frá HK til Víkings út keppnistímabilið. Þetta kom fram í tilkynningu frá handknattleiksdeild Víkings á laugardaginn. Mattý, sem er 18 ára, leikur í vinstra horni, tók þátt í sínum fyrsta leik með Víkingi í gærkvöld þegar Víkingar sóttu FH-inga heim í 2.umferð Grill66-deildar. Hún skoraði eitt mark í leiknum sem FH vann, 27:24.
- Þórir Hergeirsson þjálfari Evrópu- og heimsmeistara Noregs í handknattleik kvenna tilkynnir árdegis í dag hvaða leikmenn verja Evrópumeistaratitilinn á EM í næsta mánuði. Komið hefur fram að hin þrautreynda handknattleikskona, Veronica Kristiansen, verður ekki í hópnum. Hún þarf að leita sér lækninga vegna meiðsla og gefur ekki á kost á sér. Áður hefur komið fram að Camilla Herrem verður heldur ekki í norska landsliðinu á EM vegna þess að hún er barnshafandi.
- Peter Johanneson var í gær kallaður inn í sænska landsliðið í staðinn fyrir Andreas Palicka sem meiddist um helgina í leik með PSG um helgina. Johanneson hefur leikið vel á tímabilinu en hann gekk til liðs við Bergischer HC í sumar eftir að hafa kvatt herbúðir Lemgo.
- Jannik Kohlbacher varð í gær að draga sig út úr þýska landsliðinu í handknattleik sem býr sig undir tvo leiki í svokölluðum Evrópubikar landsliða sem fram fara á miðvikudaginn og á laugardaginn. Kohlbacher er meiddur. Fjögur landslið taka þátt í Evrópubikarnum meðan að undankeppni EM 2024 þar sem þau eru örugg um sæti í lokakeppninni, þrjár efstu þjóðir á EM sem fram fór í upphafi þessa árs og gestgjafar Þýskalands.
- Auglýsing -